Skoðun

Háttvirti þingmaður... viltu sýna okkur hjarta þitt?

Helga Birgisdóttir skrifar
Ég get rétt ímyndað mér að það taki á að vera á þingi. Ég geri ráð fyrir að þú hafir hugsjón að fylgja og svo stangist hún á við framkvæmdir sem aðrir vilja gera. 

Ég myndi sjálf aldrei treysta mér í þetta djobb – fengi hjartaáfall í fyrstu viku enda hef ég sterkar skoðanir, er ljón fædd undir sólu og mikill eldhugi.

Þingheimur lítur nefnilega út eins og orrustuvöllur fyrir flest venjulegt fólk að horfa á. Á orrustuvöllum er virðing fyrir meðbræðrum í molum (eða bæld niður með heilaþvotti óttans) og menn eru einfaldlega skotnir – drepnir.

Þar vilja allir vera sigurvegarar en gengur illa enda niðurrif ekki uppbyggilegt. Þér er kennt að eiga óvini sem þú verðir að sigra. Þar hefur þú nánast alltaf rétt fyrir þér – og þó þú hafir það ekki - skjóttu samt.

Nú farið þið öll í kirkju er þing er sett á haustin. Blessaður Jesús sem trónir í forgrunni er kannski ekkert sérlega ánægður með leikaðferðirnar sem tíðkast hinum megin við götuna.

Mér verður hugsað til sögunnar er hann á að hafa misst sig í musterinu yfir græðgi kaupmannanna. Og orðin hans: “það sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður það skalt þú og þeim gjöra”. Ég tala nú ekki um: “Það sem þú gerir mínum minnsta bróður það gjörir þú mér”. Hann hefði orðið góður pólitikus.

Hring eftir hring höfum við farið í pólitíkinni hér á landi og ekki uppskorið betur en bankahrun og endalausan skort fyrir “velferðarkerfin” þ.e. þau kerfi sem voru hönnuð til að styðja mannréttindi fólks til mannsæmandi lífs; heilbrigðiskerfið, menntakerfið, félagskerfið. Skrýtið – það er alltaf hinum að kenna.

Gæti orsökin verið að við notum ítrekað sömu aðferðina; ÓTTANN. Í þessu gósenlandi þá erum við mötuð á því að allt fari fjandans til ef við ekki kaupum hugmyndir sem eru oft skaðlegir skyndibitar (get ómögulega kallað þær skyndilausnir).

Við erum alin upp við skortshugsun – ótta við að ekki sé til nóg fyrir alla og því öruggast að sanka að sér. Það skondna við trúarbrögð óttans er að þau ala af sér skort. Því sem þú trúir - það munt þú upplifa. Náttúran svíður vegna loforða um gróða – við verðum að fórna henni - annars sveltum við. En hvar er svo þessi gróði – allt fer í hringi en skemmdarverk eru ekki aftur tekin.

Er það tilviljun að flest okkar sækjast í að eiga athvarf í náttúrunni og mörgum líður hvergi betur en í sumarbústað? Ástæðan er sú að við sjálf erum náttúra – hluti af lífinu öllu. Er það tilviljun að þegar við erum veik þá viljum við umhyggju og ókeypis læknisþjónstu frekar en stóran flatskjá?

Ég sting upp á ANDLEGUM leiðum í pólitík? Það hefur ekki verið prófað áður. Þá er áherslan á “lífið” sem heild – menn, dýr og náttúra ERU EITT. Aðferðin byggir á kærleik, virðingu og samkennd... sem er ekki munaður heldur nauðsynlegur grunnur allra þjóðfélaga (svo segir Dali Lama og ekki lýgur hann).

Ég vil benda háttvirtum þingmanni á leið til að einfalda ákvarðanatöku þegar forgangsraða þarf á þingi. Tilvalið er að styðjast við þarfapýramída Maslow en þar eru aðal undirstöðurnar: 1. Líffræðilegar þarfir þ.e. fæða, svefn, vatn, hreint loft o.þ.h. 2. Öryggisþarfir þ.e. húsnæði, heilbrigðisþjónusta, fjárhagslegt öryggi, mannleg reisn o.þ.h. Var ekki pólitík fundin upp sem kerfi til að passa upp á að þessir þættir væru í heiðri hafðir? Síðan má líka styðjast við K-in þrjú; Kærleik, kjark og kurteisi í dýpsta skilningi orðanna (ég bjó þetta kitt til sem leiðarljós fyrir sjálfa mig í den er ég ákvað að verða betri í dag en í gær).

Andleg pólitík býður upp á gegnsæi á öllum sviðum, þannig verður eftirlit sjálfsagt og fátt annað í boði en heiðarleiki.

Andleg sýn er líka mikilvæg á öllum vinnustöðum og á heimilum því pólitíkin er oftast framlenging af hugsunum og gildum þjóðarinnar.

Oft er talað um hagvöxt eins og hamingja okkar sé honum háð

Efnahagslegur hagvöxtur er ekki endilega af hinu góða. Hann getur brotið niður, sprengt upp náttúruna, gert fólk veikt af stressi, mengað umhverfi, spillt ómetanlegu útsýni og gert okkur firrt af græðgi... og springur svo eins og blaðra. Oft er vænlegra að leita eftir jafnvægi en endalausri útþenslu.

Andlegur hagvöxtur er hins vegar alltaf af hinu góða. Hann byggir upp kærleiksríkt þjóðfélag þar sem allir hafa möguleika á öryggi og umhyggju og fólki getur liðið vel. Er það ekki það sem við viljum?

Í andlegu samfélagi teldist það brandari að hjúkka sem hefur starfað í 30 ár hjá ríkinu (starfið felur aðallega í sér að bjarga mannslífum) sé á mun lægri launum en sonur hennar sem er nýbyrjaður að vinna hjá ríkinu - í sportgeiranum. Hér þykir þetta að vísu pínu skrýtið EN...

Háttvirti þingmaður, næst þegar þú stendur frammi fyrir ákvarðanatöku spurðu þá hjarta þitt. Sannleikur þinn býr í hjarta þínu en ekki í höfðinu og hann verður þér og öðrum alltaf til góðs – treystu því.

Ágóði fyrir þig er mikill: vinnan verður mun skemmtilegri, áreynslan minni, þú eignast meira af alvöru vinum og heilsan þín stórbætist. Þú myndir jafnvel lifa lengur – segja rannsóknir.

Ágóði fyrir alla; minna af kvarti og kveini um svik pólitíkusa þar sem fólk kemur saman til að eiga góða samveru. Traust og öryggi fyrir alla landsmenn sem leiðir til meiri gleði og kærleika. Færri myndu líka kjósa að flýja þessa jörð með sjálfsvígum. Og svo margt gott fleira.

Hér er nokkrum sinnum minnst á Jesús (enda partur af prógramminu við setningu þings í Dómkirkjunni) Og þar sem Jesús boðar jöfnuð og vill ekki skilja neinn útundan er best að minna á að aðrir menn, sem urðu líka heimsfrægir fyrir andlegan styrk og visku t.d. Buddha og Muhammeð, kenndu eins og Jesús kærleikann og bentu fólki á skaparann sem býr innra með öllum. Enginn þeirra stofnaði trúarbrögð kennd við sjálfan sig.

Ég sendi þér bros og blessun – kannski svolítil eigingirni í því, því ég veit að ef þú ert heill í hug og hjarta þá stórgræði ég og öll þjóðin.

... ÞVÍ ÖLL ERUM VIÐ JÚ EITT!

Eigðu góðan dag.

Gegga- Helga Birgisdóttir

Hjúkrunarfræðingur á bráðageðdeild LSH, frumkvöðull og myndlistakona




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×