Innlent

Hátt í 400 fjölskyldur þáðu mataraðstoð

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Keypt voru um 300 kíló af löngu sem pökkuð var í kílóa og hálfskílóa pokum.
Keypt voru um 300 kíló af löngu sem pökkuð var í kílóa og hálfskílóa pokum. vísir/valli
Átakinu Íslandsforeldri var hleypt af stað af Fjölskylduhjálp Íslands í dag. Um er að ræða átak sem miðar að því að auka framlög til Fjölskylduhjálpar sem nýtast munu til að auka hollustu í þeim mat sem keyptur er og úthlutað barnafjölskyldum. Söfnunin hófst í nóvember á síðasta ári og söfnuðust alls 800 þúsund krónur.

Matarúthlutunin fór fram í húsnæði Fjölskylduhjálpar við Iðufell í Breiðholti klukkan eitt í dag. Nýtt var öll sú upphæð sem safnaðist í átakinu og keypt voru 300 kíló af fisk, fimm hundruð flöskur af Lýsi og 2500 epli og appelsínur.

Strax klukkan hálf eitt myndaðist löng biðröð fyrir utan húsnæðið en að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur, framkvæmdastjóra Fjölskylduhjálpar, komu hátt í fjögur hundruð fjölskyldur. Hún segir sífellt fjölga í hópnum og ný andlit bætast við í hverri viku.

„Núna er allt búið og það mun taka okkur um tvo mánuði að safna aftur. En við vonum að við fáum fleiri Íslandsforeldra, því þó það séu bara 500 krónur á mánuði þá skiptir það okkur miklu máli,“ segir Ásgerður Jóna.

Allt fé sem safnast í átakinu verður nýtt í þeim tilgangi að auka hollustu barnafjölskyldna. Þá fá Íslandsforeldrar nákvæmt yfirlit yfir það í hvað styrkir þeirra fóru og hver heildarfjöldi styrkveitenda verkefnisins verður. Er þessi háttur hafður á í stað þess að tengja hvert Íslandsforeldri við barn.

Hægt er að leggja málefninu lið inni á heimasíðu Fjölskylduhjálpar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×