Skoðun

Haraldur Bessason og vesturíslenska

Kristín M. Jóhannsdóttir skrifar
Nú í ár eru liðin þrjátíu ár frá því Haraldur kvaddi íslenskudeildina í Manitoba og gerðist rektor hins nýstofnaða háskóla á Akureyri. Það að skólanum lánaðist að fá Harald til þess að standa í brúnni á fyrstu mótunarárunum hefur óneitanlega haft áhrif á það hvernig skólinn þróaðist og dafnaði og því er það eðlilegt að nú þegar haldið er upp á þessi fyrstu þrjátíu ár hefjist afmælisárið með málþingi helguðu Haraldi Bessasyni og mótunarárum skólans. Þingið fer fram í Hátíðarsal Háskólans á Akureyri, frá þrjú til fimm, föstudaginn 13. og er öllum opið.

Orðið vesturíslenska virðist í upphafi hafa verið notað í niðrandi merkingu og skilið þannig að um “miður hreina og málfræðilega bjagaða íslensku” væri að ræða. Enda voru fyrstu einkenni vesturíslenskunnar væntanlega enskuslettur eins og þær sem Guttormur Guttormsson gerði grín að í ljóði sínu Winnipeg-Icelander, og sem Káinn vísaði í þegar hann sagði að ljóð dagsins hefði verið flutt á Winnipeg-íslensku. Haraldur Bessason, sem skrifaði sennilega manna mest um vesturíslenska menningu benti hins vegar á að enskuslettur gerðu málið ekki að vesturíslensku, enda væru enskuslettur áberandi í því máli sem talað er á Íslandi, og hafi jafnvel verið áberandi í fornum textum svo sem Tristamsögu. Í staðinn vildi Haraldur skilgreina vesturíslensku með tilliti til staðarlegrar afmörkunar og hefðar, auk tilvísunar í tíma. Haraldur benti á að íslenskir vesturfarar hefðu haft lítil sem engin kynni af iðnvæðingu og því sem henni fylgdi og því í raun ekki furða þótt enskan hefði fljótt farið að troða sér inn í málið eins og í tilfellum kar fyrir bíl, telefón fyrir síma og ambjúlans fyrir sjúkrabíl. En þó var það svo að ensku orðin voru ekki bara ný orð yfir hluti sem innflytjendurnir áttu ekki að venjast.

Fljótt fóru að heyrast orð eins og farmari fyrir bónda, steibla fyrir fjós, og ljóshús fyrir vita. Þá var algengt að gamalgróin íslensk orð fengju nýja merkingu í samræmi við hljóðlík orð á ensku og þannig fór sögnin kalla að merkja ‚að hringja í‘, sögnin ,lifa ‚að búa‘ og sögnin vanta ‚að vilja‘. Þá fór lýsingarorðið stuttur að tákna þann sem er blankur og lýsingarorðið þunnur þann sem er grannur. Auk þess fór nafnorðið briggja að tákna brú. Haraldur taldi upp fjölmörg slík dæmi sem hann hafði safnað. Hann nefndi líka að tíðar hafi orðið upphrópanirnar sjúr, well, og ókei, en hið síðastnefnda er vissulega nú einnig algengt hér heima. Haraldur tiltók einnig ýmis dæmi um orðtök eða orðatiltæki sem hafi verið beinþýdd úr ensku og hljóma því undarlega í eyrum annarra, eins og að koma upp með eitthvað í merkingunni að varpa einhverju fram eða útvega eitthvað, að renna út af einhverju í merkingunni að verða uppiskroppa með eitthvað, og að vera einhvers staðar fyrir langan tíma í merkingunni að dveljast lengi á einum stað. Slíkum beinþýðingum á orðasamböndum og orðatiltækjum hefur reyndar fjölgað mjög í íslensku máli á undanförnum árum og því er í raun auðvelt að sjá hliðstæðu vesturíslensku á tuttugustu öld og íslensku á þeirri tuttugustu og fyrstu.

Haraldur rannsakaði einnig íslensk mannanöfn vestra og benti á að snemma hafi áherslan verið lögð á föðurnöfn í samræmi við engilsaxneska hefð og í flestum tilvikum hafi því föðurnöfn orðið að ættarnöfnum, oft með smávægilegum breytingum. Þannig hafi tvöfalda essið í nöfnum eins og Björnsson og Jónsson einfaldast, ö-ið horfið úr Björnsonarnafninu og Jónsson orðið að Johnson. En þar sem Björnssynir og sérstaklega Jónssynir voru margir fóru ýmsir þá leið að taka upp ættarnöfn dregin af íslenskum staðarheitum: Þannig varð til Hurdal úr Hörðudal og Eyford úr Eyjafirði. Sveinbjörnsson gat líka breyst í Swinburne og þannig mætti áfram telja. Alls safnaði Haraldur saman sextíu íslenskum ættarnöfnum sem oftast gáfu til kynna hvaðan af Íslandi nafnberendur voru ættaðir. Enn verri útreið hlutu skírnarnöfnin en Björn varð oft að Barney, Hinrik, að Henry og þar fram eftir götunum. Þar að auki fækkaði þeim hratt sem fengu íslensk mannanöfn og í rannsókn Haraldar kom fram að á árunum 1920-21 hlutu 57% skírðra barna í íslenska samfélaginu alíslensk nöfn og 27% blönduð nöfn, en á árunum 1950-51 fékk ekkert barn alíslenskt nafn en 38% fengu blönduð nöfn.

Haraldur var prófessor og deildarformaður íslenskudeildar Manitóbaháskóla frá 1956 til 1987 þegar hann flutti aftur heim og tók við fyrstu rektorsstöðu Háskólans á Akureyri. Hann var því við störf í Winnipeg á miklum breytingatímum í þessu tiltölulega unga íslenska samfélagi. Þegar hann fór út var íslenskan ennþá svo sterk að langflestir Vesturíslendingar töluðu ennþá íslensku; blöðin voru á íslensku, messað var á íslensku, og íslenska var sú tunga sem notuð var á fjölmörgum stöðum. Þetta fór svo smá saman að breytast og þeim stöðum fækkaði ört þar sem íslenskan ein dugði. Haraldur náði því að horfa upp á hnignun íslenskrar tungu í vesturheimi þótt hann yrði ekki viðstaddur jarðaför hennar. Á sama máta náði hann að fylgjast með styrkingu hinnar nýju vesturíslensku menningar. Hann sagði sjálfur frá því að þegar hann gekk í Þjóðræknisfélagið hafi meðlimir flestir verið fjörgamlir og að yngra fólk hafi sýnt þjóðrækni lítinn áhuga. Þetta breyttist svo í tíð Haraldar og á hans árum jókst áhugi yngra fólks á íslenskri menningu og meðalaldur Þjóðræknisfélagsins snarlækkaði, þótt aldrei hafi hann orðið sérstaklega lágur. Það sem þarna var að gerast voru eðlilegar breytingar í innflytjendasamfélagi þar sem þriðja kynslóð innflytjenda var að uppgötva rætur sínar og fór að leggja rækt við menningu afa síns og ömmu, ólíkt foreldrum sínum sem líklega höfðu lagt allt sitt í að aðlagast meirihlutasamfélaginu.

Haraldur var því hluti af þessu vesturíslenska samfélagi einmitt á þeim tíma þegar breytingarnar urðu sem mestar úr innflytjendasamfélagi í einhvers konar erfðasamfélag þar sem reynt var að halda í gamla siði og venjur á sama tíma og aðrir menningarstrauma sóttu hart að. Skrif Haraldar eru því mikilvægari en margur myndi ætla. Hann sagði okkur sögur af fyrstu innflytjendunum (sem þarna voru orðnir nokkuð aldraðir), hann sagði okkur sögur af börnum þeirra, fyrstu eiginlegu Vesturíslendingunum, sem voru að fóta sig í fæðingarlandi sínu en í menningu sem ekki tilheyrði því landi.Og svo sagði hann okkur frá barnabörnunum sem af krafti og þrótti höfðu áttað sig á því að þau vildu ekki tapa þessari íslensku menningu sem þeim fannst skilgreina hver þau voru. Fá okkar sem síðar komum þangað út fengum slík tækifæri. Skrif Haraldar um vesturíslenska menningu, hvort sem það voru eiginlegar rannsóknir eða skemmtilegar frásagnir í Bréfi til Brands eða Dagstund á Fort Garry, eru því fjársóður sem ekki má glatast.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×