Fótbolti

Hamrén hættir með Svía eftir EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Erik Hamrén fagnar á Parken.
Erik Hamrén fagnar á Parken. vísir/getty
Erik Hamrén, landsliðsþjálfari Svíþjóðar í fótbolta, lætur af störfum eftir Evrópumótið í Frakklandi í sumar, en þetta kemur fram á vef sænska ríkissjónvarpsins.

Samningur Hamréns rennur út eftir Evrópumótið og sækist þjálfarinn ekki eftir nýjum samningi þrátt fyrir að koma liðinu á EM í Frakklandi.

Svíar mættu Dönum í umspili um laust sæti á EM og höfðu betur, en þetta er fimmta Evrópumótið í röð sem Svíar komast á.

Nú þarf sænska knattspyrnusambandið að fara á fullt að finna eftirmann Hamréns og að sögn Lars-Christer Olson, varaforseta sænska sambandsins, er listi klár.

„Við fundum í febrúar og ræðum þá hver á að taka við. Það er listi klár en ég get ekki sagt meira en það,“ segir Olson.

Hamrén kom Svíum einnig á EM 2012 en ekki HM í Brasilíu 2014. Þessi 58 ára gamli þjálfari var þjálfari ársins í Danmörku 2008 þegar hann stýrði Álaborg til sigurs og þá varð hann norskur meistari með Rosenborg árið eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×