Fótbolti

Hamann: Guardiola þarf að sanna sig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guardiola hefur gert Bayern að þýskum meisturum í tvígang.
Guardiola hefur gert Bayern að þýskum meisturum í tvígang. vísir/getty
Dietmar Hamann, fyrrverandi leikmaður Bayern München og Liverpool, segir að Bayern þurfi að eyða háum fjárhæðum í leikmenn til að komast á sama stall og Barcelona.

Börsungar urðu um helgina Evrópumeistarar og fullkomnuðu þar með þrennuna svokölluðu; unnu deild, bikar og Meistaradeild Evrópu.

„Barcelona styrkti sig mikið með kaupunum á Neymar, Luís Suárez og Ivan Rakitic,“ sagði Hamann í samtali við TZ í heimalandinu.

„Vandamálið hjá Bayern er að lykilmenn á borð við Franck Ribéry og Arjen Robben eru farnir að eldast.

„Bastian Schweinsteiger og Xabi Alonso verða heldur ekkert yngri. Stór hluti liðsins er á fínum aldri en liðið þarf að styrkja sig í kantstöðunum, þar sem bestu leikmenn heims á borð við Lionel Messi, Neymar og Eden Hazard spila.

„Ég er sammála Karl-Heinz Rummenigge (stjórnarformanni Bayern) að það er ekkert vit í því að umbylta liðinu en þeir geta ekki beðið með það í 6-12 mánuði að endurnýja það,“ sagði Hamann segir að Pep Guardiola þurfi að vinna Meistaradeildina með Bayern.

„Mér finnst Guardiola enn þurfa að sanna sig. Meistaradeildin er aðalmálið. Bayern tapaði 5-0 fyrir Real Madrid í fyrra og 5-3 fyrir Barcelona í ár, með leikmannahóp sem er örugglega jafn dýr og hjá þessum liðum,“ sagði Hamann sem á ekki von á því að Guardiola verði lengi við stjórnvölinn á Allianz Arena.

„Guardiola gerir miklar kröfur til sjálfs sín og er því fljótur að brenna út. Ég held að hann geti ekki starfað hjá sama félaginu nema í 3-4 ár, svo hann verður varla lengi hjá Bayern.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×