Skoðun

Haldbær sjálfbærni

Herdís Sigurjónsdóttir skrifar
Sjálfbærni var ekki fundin upp með Brundtlands-skýrslu Sameinuðu þjóðanna árið 1987, en frá þeim tíma hefur hugtakið sjálfbær þróun (sustainable development) verið notað.

Sjálfbær þróun var þar skilgreind sem sú þróun sem fullnægir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja þörfum sínum. Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafa gengist undir skuldbindingar varðandi umgengni um þessa einu jörð, enda sameiginlegt viðfangsefni. Árið 2002 samþykkti íslenska ríkið landsstefnu um sjálfbæra þróun á Íslandi undir yfirskriftinni Velferð til framtíðar. Fjölmörg sveitar­félög og fyrirtæki hafa einnig sett fram leiðir til aukinnar sjálfbærni.

Sjálfbærnihugtakið vefst enn fyrir mörgum, en þó fullyrði ég að fáir telja sjálfbæra þróun snúast um flokkun á rusli eins og algengt var í upphafi. Í dag er talað um sjálfbærar borgir, sjálfbærar kauphallir og sjálfbærnistöðu fyrirtækja. Einnig er talað um sjálfbærni skulda og hvort ríkisfjármálin geti talist sjálfbær til lengri tíma. Á sama tíma og utanríkisráðherra Íslands ræddi við kanadískan og norskan kollega um samstarf á sviði sjávarútvegs og mikil­vægi sjálfbærrar nýtingar á fiskistofnum birtust myndir af Hollywood-leikkonunni Emmu Watson. Emma klæddist síðkjól hönnuðum af Calvin Clein og Eco Age, sem var saumaður með sjálfbærni að leiðarljósi. Af þessu sést að sjálfbærni er augljóslega eftirsóknarverð, hvaða skilning sem fólk leggur í hana. Það verður að teljast góð þróun.

Í sumar fór ég með erlenda gesti um landið og úr þeirri ferð er mér minnisstætt hvað sjálfbærni kom oft upp í hugann daginn sem við snæddum í Efstadal II. Þó sá ég það hvergi á prenti. Sama ættin hefur búið á bænum síðan um 1850 og þar reka þau glæsilega ferðaþjónustu með gistingu, veitingastað þar sem boðið var upp á Efstadalssteikur og -borgara, kokteil úr mysu og silung úr nágrenninu. Eftir matinn gátum við notið þess að horfa á kýrnar í fjósinu á meðan við gæddum okkur á gómsætum ís, sem framleiddur er á staðnum, úr Efstadalsmjólk. Frábært dæmi um það hvernig hægt er að byggja upp og auka virði þess sem fyrir er, kynslóð fram af kynslóð.

Hvert og eitt getum við lagt okkar af mörkum hvort sem við stjórnum heimilum, fyrirtækjum eða ríkjum. Lítum okkur nær því þegar allt kemur til alls þá snýst sjálfbær þróun ekki um gildishlaðin orð á blaði, heldur um það sem framkvæmt er.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×