Skoðun

Hagstæðasta kostinum í vegamálum sleppt

Jónas Guðmundsson skrifar
Nýlega var gerð opinber skýrsla starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði til þess að kanna möguleika á einkaframkvæmd í vegagerð hér á landi. Var hópnum ætlað að fjalla um þær framkvæmdir í vegakerfinu sem telja mætti fýsilegt að setja í einkaframkvæmd og þannig mögulega flýta þeim. Í stuttu máli var niðurstaða hópsins sú að ekki væri rétt eða álitlegt að skoða aðra framkvæmd en Sundabraut.

Sú vegaframkvæmd sem telja má langhagkvæmast að einkaaðilar fjármagni og eftir atvikum reki, þ.e. svonefnd Húnavallaleið (Svínavatnsleið), fékk hins vegar sáralitla efnislega umfjöllun í skýrslunni. Sagði um hana: „Um er að ræða svokallaða Húnavallaleið. Stytting leiðar norður í land (svo) yrði um 14 km og þó umferð sé ekki mikil bendir frummat starfshópsins til að framkvæmdin standi að mestu undir sér án ríkisframlaga, þ.e. að greiðsla veggjalda geti dugað til að framkvæma verkið. Ekki er samkomulag við sveitarfélagið um leiðina og kom þetta verkefni ekki til frekari skoðunar hjá starfshópnum. Vegagerðin áætlar stofnkostnað um 2.150 m.kr.“

Það er miður og raunar einkennilegt og hlýtur að kalla á sérstakar skýringar að ekki sé fjallað frekar um þessa leið með þeim rökum einum að ekki sé samkomulag við „sveitarfélagið“ um leiðina.  Nýr vegur, sem yrði um 16 km, lægi um tvö sveitarfélög, 15 km í Húnavatnshreppi og 1 km í Blönduósbæ.  Hvort sem samkomulag liggur fyrir á ákveðnum tímapunkti um ákveðna framkvæmd í vegagerð eða ekki hlýtur fagleg umfjöllun um mögulega einkaframkvæmd við gerð vegar þá tilteknu leið eins og aðrar leiðir að gagnast í ýmsu tilliti.  M.a. við ákvörðun um forgangsröðun í vegakerfinu, t.d. við undirbúning næstu 12 ára samgönguáætlunar, eftir atvikum að höfðu samráði við hlutaðeigandi sveitarfélög.

Það er þó bót í máli að þegar liggja fyrir a.m.k. þrjár úttektir, sem allar eru samhljóða, um að Húnavallaleið sé afar arðsöm leið, hvernig sem á er litið, samfélagslega, umhverfislega, með tilliti til byggðasjónarmiða í víðu samhengi og aukins umferðaröryggis. Jafnframt ætti framkvæmdin að geta farið langt með að bera sig að fullu fjárhagslega með gjöldum af vegfarendum.

Gerð Húnavallaleiðar mundi án efa draga eitthvað úr umferð um Blönduós og e.t.v. leiða til minnkaðra umsvifa þar sem því næmi. Þarf þá að greina möguleg samfélagáhrif hugsanlegs nýs vegar sem best og huga að mögulegum mótvægisaðgerðum. Ber að hafa í huga að aukin umsvif ættu að geta skapast við hinn nýja veg, sem ekki liggur ýkja langt frá Blönduósi, auk þess sem minnkuð umferð um Blönduós gæti á sína vísu einnig haft ýmis jákvæð áhrif. Gæti málamiðlun einmitt falið í sér að leggja hinn nýja veg í einkaframkvæmd með veggjöldum.

Hefðu vegfarendur þá val um hvort þeir greiddu t.d. 800 kr. fyrir að komast styttri leið eða færu lengri leið sér að kostnaðarlausu. Hefði umfjöllun starfshópsins einmitt getað nýst vel við þessa skoðun.

Ekki verður við annað unað en gert verði ráð fyrir vegi þessa leið í þeirri 12 ára samgöngu-áætlun fyrir árin 2015 til 2026 sem nú er í vinnslu. Miklir hagsmunir eru í húfi af styttri leið fyrir samfélagið og umferðina. Þótt sveitarfélögum beri lögum samkvæmt að annast gerð aðalskipulags og vegir verði ekki lagðir nema gert sé ráð fyrir þeim þar eru einstök sveitarfélög ekki einráð um efni aðalskipulagsins. Ef Alþingi samþykkir að gera ráð fyrir vegi einhverja tiltekna leið í samgönguáætlun, ber hlutaðeigandi sveitarfélagi að taka hann inn í aðalskipulag við næstu endurskoðun þess.

Þótt hér sé eingöngu fjallað um Húnavallaleið á allt hið sama við um mögulega styttingu í Skagafirði, sem í skýrslunni er nefnd „Skagafjarðarleið“ en einnig hefur verið nefnd „Vindheimaleið“, nema þar yrði um nokkru kostnaðarsamari framkvæmd að ræða (2.550 m.kr.).  Nýr vegur lægi um sveitarfélögin Akrahrepp og Sveitarfélagið Skagafjörð og yrði um 13 km og stytting um 6 km. Vel mætti skoða að fara með Húnavallaleið og Vindheimaleið í sameiginlega einkaframkvæmd með veggjöldum og stytta þannig leiðina milli Suðvestur- og Norðausturlands um samtals 20 km, hvorki meira né minna. Þessu fylgdi auk þess að umferðin færi 32 km á vegum lögðum samkvæmt nýjustu stöðlum, í stað þess að fara 20 km lengri leið á eldri vegum, samtals um 50 km.

Er ekki kominn tími til að láta heildarhagsmuni og umferðaröryggi ráða legu aðalakleiða landsins ekki síst ef vegfarendur sjálfir eru reiðbúnir að greiða kostnað við það?  A.m.k. er brýnt og ástæðulaust að óttast að greina og kynna kosti við nýjar akleiðir sem best og mögulega einkafjármögnun þeirra en ekki ýta hugmyndum í þá veru til hliðar án nokkurrar skoðunar.

Húnavallaleið.
.

Vindheimaleið.
.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×