Skoðun

Hagið ykkur!

Gunnar Kristinn Þórðarson skrifar
Fyrir nokkrum árum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í Öryrkjabandalagsdómunum svokölluðu að mannréttindaákvæði stjórnarskrár skyldu túlka út frá alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Ísland er aðili að, einkum Mannréttindasáttmála Evrópu. Fjölskyldubönd, þar með talin lífssambönd milli fráskildra feðra og barna þeirra eru varin af mannréttindaákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs og 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Álitaefni um hvort lög og lagaframkvæmd er varða umgengnisforeldra standist stjórnarskrá fer því eftir túlkun á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Ljóst er að helmingur umgengnisforeldra er á vanskilaskrá vegna þess að þeir hafa ekki aðgang að velferðarbótum sem foreldrar. Að auki er réttur umgengnisforeldra til að umgangast börn sín bágborin, og jafnvel þótt þeir hafa þann rétt barnalögum samkvæmt eru engin marktæk úrræði til að koma á umgengni ef lögheimilisforeldri er einbeitt við að tálma umgengni. Í dag telur sýslumaður sig hafa rétt til að aðskilja föður og barn eða úrskurða hæft foreldri til lágmarksumgengni sem eru um 4 dagar í mánuði. Dagsektarúrræði eru seinvirk og léleg, eru sjaldan beitt og geta tálmunarforeldrar leikið á kerfið og tálmað umgegni án þess að greiða nokkurn tímann krónu í dagsektir. Ljót dæmi eru um að gegnheilir feður, og fjölskyldur þeirra, hafi ekki séð eða umgengist börn sín svo árum skiptir vegna þess að stjórnvöld leggja blessun sína yfir umgengnistálmanir með aðgerðarleysi sínu.

Í október síðastliðnum samþykkti þing Evrópuráðsins ályktanir um foreldrajafnrétti sem farið hafa hljótt (ályktun nr. 2079). Eru þær ályktanir á vitorði fjölmiðla sem þegja þunnu hljóði um mikilvægi þeirra. Skömm þeirra er mikil!

Í ályktuninni kemur fram að feður standa höllum fæti frammi fyrir lögum, vinnureglum og fórdómum sem valda því að þeir eru sviptir tengslum við börn sín. Kemur að aðskilnaður föðurs og barns eigi aðeins að vera fyrirskipaður af dómstólum og einungis í undantekningar tilvikum. Eru aðildarríki ráðsins hvött til þess að sjá til þess að foreldrar hafi jafnan rétt er snertir börn þeirra í lögum og stjórnsýsluframkvæmd. Eru þau að auki hvött til að fjarlægja úr lögum alla hugsanlega mismunun grundvallaða á hjúskaparstöðu milli foreldra sem gengist hafa við barninu. Eru ríkin hvött til að innleiða lög þess efnis að deild búseta verði meginreglan eftir skilnað eða sambandsslit og að skipting þess tíma sem barnið dvelur hjá hvoru foreldri taki mið af þörfum barns og hagsmunum. Að mati ráðsins ættu einu undantekningar á þessari meginreglu að vera tilfelli þar sem barn er misnotað, vanrækt eða ef það býr við heimilisofbeldi. Að auki eru aðildarríki hvött til að taka tillit til deildrar búsetu þegar kemur að félagslegum bótum og að grípa til allra nauðsynlega ráðstafanna til að tryggja að ákvarðanir sem tengjast búsetu barna og umgengnisrétt sé að öllu leyti framfylgt, sérstaklega með því að fylgja eftir kvörtunum um að barn hafi ekki verið látið af hendi.

Ljóst má vera að Alþingi og íslensk stjórnvöld ganga gegn afstöðu Evrópuráðsins í öllum meginatriðum. Samtök umgengnisforeldra telja mikilvægt að ástæðulausar umgengnistálmanir séu skilgreindar sem ofbeldi gagnvart barni, og að kvörtun um tálmanir verði að barnaverndarmáli um leið og hún berst á borð sýslumanns. Þá eigi barnaverndaryfirvöld og dómstólar að vera einu bæru stjórnvöldin til að úrskurða að engin umgengni eigi að eiga sér stað, en ekki skriffinnar hjá sýslumannsembættunum. Að sama skapi verður Alþingi að sjá til þess að feður fái aðgengi að velferðarkerfinu sem foreldrar en ekki eins og barnslausir einstaklingar, enda ekki börnum fyrir bestu að fráskildir feður eigi ekki til hnífs og skeiðar.

Samtökin álíta að afstaða Evrópuráðs sé gilt lögskýringargagn og til fyllingar við túlkun á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sem er svo lagt til grundvallar við túlkun á ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs. Er ástæða til að hvetja umgengnisforeldra sem órétti eru beittir að stefna sýslumannsembættum fyrir dóm á grundvelli þessara sjónarmiða, vegna brota á stjórnarskrárvörðum rétti þeirra, þegar kemur að rétt til umgengni með skilnaðarbörnum og rétti til félagslegra bóta sem foreldrar. Allir í einu ef þörf krefur!

Þolinmæðin er á þrotum. Er mál að embættismenn og alþingismenn fari að haga sér kristilega en ekki eins og baldnir og óuppaldir krakkar er varðar málefni umgengnisforeldra. Hagið ykkur!




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×