Innlent

Hæstiréttur staðfestir brot gegn fimm unglingsstúlkum

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/GVA
Hæstiréttur Íslands hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suðurlands yfir manni sem var sakfelldur um brot gegn barnaverndarlögum gagnvart fimm stúlkum.

Brotin voru gegn stúlkum á aldrinum 14 til 15 ára en maðurinn var meðal annars fundinn sekur um að hafa snert rass þeirra og brjóst utan klæða og fyrir að hafa losað eða reynt að losa brjóstahaldara þeirra. Þá hafði hann á orði við eina stúlkuna að hún væri með flott brjóst og flottan rass spurt eina, sem þá var fjórtán ára, í gegnum netspjall í „hvernig nærbuxum hún væri í“.

Að mati Héraðsdóms Suðurlands var framburður stúlknanna mjög trúverðugur og gott innbyrðis samræmi í honum. Var ljóst að þessi atvik hafa haft mikil áhrif á allar stúlkurnar og glíma þær enn við afleiðingarnar, að því er fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurlands. Framburður þeirra fær einnig stoð í framburði foreldra stúlknanna og vitna.

Héraðsdómur taldi nægilega sannað að maðurinn hafi haft fulla vitneskju um aldur allra brotaþola. Segir Héraðsdómur Suðurlands stúlkurnar allar hafa lýst því hvernig þær hafi borið traust til mannsins og litið upp til hans.

Héraðsdómur Suðurlands gerir athugasemdir við vinnubrögð sálfræðinga í málinu með því að hafa rætt við brotaþolana í sameiningu áður en málinu var vísað til lögreglu. Þá segir dómurinn það vera óútskýrt og athugavert að skýrslutökur af stúlkunum hafi ekki farið fram fyrr en 5. og 6. apríl árið 2011 en beiðni um lögreglurannsókn barst 21. febrúar sama ár.

Það breytti þó ekki þeirri niðurstöðu dómsins að þegar málið er virt í heild og með hliðsjón af játningu mannsins að hluta, þykir hafið yfir skynsamlegan vafa að hann gerðist sekur um háttsemi sem honum er gefin að sök.

Var maðurinn dæmdur til níu mánaða fangelsisvistar en fullnustu refsingarinnar skal frestað og hún fellur niður að tveimur árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins haldi hann almennu skilorði. Auk þess var hann dæmdur til að greiða stúlkunum skaðabætur en Hæstiréttur úrskurðaði að dómur Héraðsdóms Suðurlands skildi standa óraskaður um annað en að þóknun skipaðs réttargæslumanns allra brotaþola í héraði skal samtals vera 941.250 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×