Innlent

Hænan Guðrún Ragnheiður með átján unga

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hænan Guðrún Ragnheiður á bænum Rima í Biskupstungum í Bláskógabyggð þykir einstök því hún elur upp átján unga. Best þykir henni að fá ost en hún passar þó alltaf að ungarnir fái fyrst bita áður en hún fær sér sjálf.

Það eru þau Konráð Ásgrímsson og Elín Siggeirsdóttir sem búa í Rima. Þau eru með nokkrir gæsir, sem Konráð sér alfarið um og nokkrar endur eru líka á bænum. Þá eru þau með nokkur stór og öflug býflugnabú, sem gefa þeim mikið magn af hunangi. Landnámshænurnar eru sérsvið Elínar en þar sker hænan Guðrún Ragnheiður sig úr því hún er með átján unga hjá sér í uppeldi.

„Þetta eru yndislegar hænur og þessi hæna er alveg einstök. Hún kom hingað með tvö egg og við laumuðum ungungum undir hana um leið og þeir klöktust út. Hún tók við þeim öllum, átján stykkjum og hún sér mjög vel um þá“, segir Elín og bætir við. „Hún matar þá úr gogginum og týnir úr bestu bitana fyrir ungana, síðan étur hún restina“.

Guðrún Ragnheiður er mjög hrifin af osti. „Já, það er uppáhaldið, ég stelst alltaf til að gefa þeim eina ostsneið á dag, það er rifrildi um ostinn. Hún skilur sjaldnast nokkuð eftir af honum, laumar kannski einum bita upp í sig þegar hún er búin að gefa ungunum“, segir Elín.

En nafnið á hænunni, Guðrún Ragnheiður, hvaðan kemur það ?

„Sú sem gaf okkur hænurnar og stóð fyrir því að við fengum þær heitir Guðrún Ragnheiður og því fannst mér tilvalið að skíra hænuna í höfuðið á henni“, segir Elín hænsnabóndi í Rima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×