Íslenski boltinn

Gunnar ósáttur og hættur hjá Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Oddsson.
Gunnar Oddsson. Mynd/Vilhelm
Gunnar Oddsson hefur látið af störfum sem aðstoðarþjálfari Keflavíkur. Hann var ekki sáttur við ákvörðun félagsins að reka Zoran Daníel Ljubicic úr starfi þjálfara.

„Mér fannst eðlilegt að nýr maður fengi að velja sér aðstoðarmann, fyrst það var ákveðið að breyta um tón,“ sagði Gunnar í samtali við Vísi í dag.

Zoran var rekinn í fyrrakvöld og Kristján Guðmundsson, fyrrum þjálfari Keflavíkur, ráðinn til að stýra liðinu til loka tímabilsins.

„Ég var ekki sáttur við þessa ákvörðun. Flóknara er það ekki. Vissulega vantaði upp á stigin hjá okkur en spilamennskan er ekki búin að vera arfaslök.“

Hann segir að þjálfarabreytingar hjá öðrum félögum, til að mynda Fram, hafi haft áhrif á þetta.

„Þetta gekk upp hjá Fram - allvega hingað til. Þá horfa menn til þess og vilja breyta til hjá sér. En ég er á þeirri skoðun að við hefðum átt að fá tvo leiki til viðbótar hið minnsta.“

Gunnar segir óvíst hvað taki við hjá sér en hann var hættur afskiptum af fóbolta þegar hann gerðist aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar árið 2011.

„Þá kom smá neisti og ég var tilbúinn í þennan pakka með Zoran. En svo þegar forsendurnar breytast finnst mér eðlilegt að stíga til hliðar. Ég veit ekki hvað gerist næst - ég er í krefjandi starfi og fékk leyfi þar til að fara aftur í þjálfun. Það verður bara að koma í ljós.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×