Innlent

Guðni myndi gera Lars að heiðursborgara á Íslandi ef hann gæti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson og Lars Lagerbäck.
Guðni Th. Jóhannesson og Lars Lagerbäck. vísir
Guðni Th. Jóhannesson nýkjörinn forseti segir að hann myndi vilja gera Lars Lagerbäck landsliðsþjálfara að heiðursborgara á Íslandi ef hann gæti til að þakka honum fyrir sitt góða starf í þágu knattspyrnunnar hér á landi.

 

Árangur íslenska karlalandsliðsins á Evrópumótinu í fótbolta hefur vakið verðskuldaða athygli víða um heim en ætli Svíar séu ekki sú þjóð sem fylgst hafi hvað best með landsliðinu eftir að Lagerbäck tók við sem þjálfari árið 2011.

 

Guðni var í viðtali við sænska dagblaðið Expressen í vikunni og er það aðgengilegt á vef blaðsins. Viðtalið er tekið á Keflavíkurflugvelli og byrjar blaðamaðurinn á að spyrja Guðna á ensku. Nýkjörni forsetinn svarar hins vegar á skandinavísku og segir blaðamaðurinn að henni þyki mikið til þess að Guðni svari ekki á ensku heldur næstum því á sænsku.

Í viðtalinu ræðir Guðni Lars Lagerbäck og segist vilja þakka honum og Svíþjóð fyrir.

„Við á Norðurlöndunum stöndum saman og við Íslendingar höfum í mörg ár átt í góðu sambandi við Svía. Við vonumst til að öll Svíþjóð styðji okkur á sunnudag,“ segir Guðni og vísar í leik Íslendinga og Frakka í 8-liða úrslitunum sem fer fram í París á sunnudagskvöld.

Fyrir liggur að Lars hættir með landsliðið eftir EM en blaðamanni Expressen leikur forvitni á að vita hvernig þjóðin mun þakka Lars fyrir og hvort við munum ef til vill reisa styttu af honum?

„Við munum gera það sem við getum til þess að láta hann finna hversu mikilvægur hann hefur verið okkur. Ef ég gæti, myndi ég gera hann að heiðursborgara,“ segir Guðni.

Viðtalið við hann má sjá í heild hér en blaðamaðurinn leysti hann út með góðri gjöf í lok viðtalsins. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×