Innlent

Guðmundur: Forsetinn kominn í pólitík

Karen Kjartansdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson segir að forsetinn sé kominn í pólitík.
Guðmundur Steingrímsson segir að forsetinn sé kominn í pólitík.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir þjóðina hafa sent þau skilaboð í forsetakosningunum að forsetinn eigi að láta til sín taka í umræðunni um hin stærstu mál. Guðmundur Steingrímsson, formaður stjórnmálaflokksis Bjartrar framtíðar, segir að með þessu sé forsetinn kominn í pólitík og að breytingar þurfi að verða á embættinu í samræmi við það. Skoðanir forsetans geti ekki komið úr vernduðu umhverfi.

Guðmundur segir að það kunni að vera rétt hjá Ólafi Ragnari að niðurstöður forsetakosninganna sýni að þjóðin vilji forseta sem láti til sín taka þegar kemur að veigamiklum málum. Breytingar verði þó að gera á forsetaembættinu í samræmi við það.

„Í kosningabaráttunni gat ég ekki skilið hann öðruvísi en forseti ætti að hafa hafa sjálfstæða utanríkisstefnu en þá þurfum við að hugsa forsembættið upp á nýtt. Það gengur ekki að eitthvað embætti þar sem forsetaritari og bílstjóri sé með sjálfstæða utanríkisstefnu heldur þarf að fjölga liði forsetans og á skrifstofu hans svo hann hafi allar forsendur og aðbúnað til að móta þá utanríkisstefnu," segir Guðmundur.

Ólafur segir í viðtali við Fréttablaðið í dag að áhersla Þóru Arnórsdóttur á hlédrægari forseta hafi ekki fengið brautargengi. Hún hafi haft þá skoðun að forsetinn ætti alls ekki tjá sig um stjórnarskrána og Evrópusambandið en sú skoðun ekki hlotið afgerandi stuðning. Skilaboðin þjóðarinnar séu þau að forsetinn eigi að láta til sín taka í stórum málum. Þá segir hann að vantraust landsmanna á Alþingi auki kröfur um að forsetinn grípi inn í.

Guðmundur Steingrímsson, spyr hvað þetta muni hafa í för með sér. Hvort forseti ætli að taka þátt í rökræðum á síðum blaða, hvort leyfði verði andsvör við ræðum hans við setningu Alþingis, hvort hann taki þátt í rökræðum við fulltrúa andstæðra sjónarmiða í sjónvarpsþáttum og hvort gagnstæð sjónarmið muni fá pláss í erlendum fjölmiðlum þegar hann tjáir sig þar. Lykilatriðið sé að forseti geti ekki haft afskipti ofan af stalli í heitustu deilumálum samtímans. Ef hann ætli að lýsa skoðunum sínum á annað borð verði allt annað sem tilheyrir lýðræðislegum skoðanaskiptum og gagnrýnni umræðu að fylgja með.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×