Enski boltinn

Grét þegar að hann fór frá Chelsea: „Hefði átt að fatta að þetta var röng ákvörðun“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Damien Duff grét ekki þegar hann var að vinna Englandsmeistaratitla með Frank Lampard og Eiði Smára.
Damien Duff grét ekki þegar hann var að vinna Englandsmeistaratitla með Frank Lampard og Eiði Smára. vísir/getty
Fyrrverandi fótboltamaðurinn Damien Duff viðurkennir að hafa grátið þegar hann yfirgaf Chelsea og gekk í raðir Newcastle árið 2006. Hann segir það hafa verið ranga ákvörðun hjá sér.

Duff átti þrjár mjög flottar leiktíðir á Stamford Bridge og varð Englandsmeistari í tvígang undir stjórn José Mourinho auk þess sem hann fagnaði deildabikarnum með liðinu. Hann var seldur til Newcastle árið 2006.

Duff spilaði sinn besta fótbolta á ferlinum á kantinum hjá Chelsea sem var frábært sóknarlið með Arjen Robben á hinum vængnum og Didier Drogba frammi.

„Ég grét daginn sem ég yfirgaf Chelsea. Þegar ég horfi til baka hefði ég átt að fatta að ég var að taka ranga ákvörðun þar sem ég grét ekki þegar ég yfirgaf Blackburn, Newcastle eða Fulham. Ég grét ekki einu sinni þegar ég lagði skóna á hilluna. En þetta var mín ákvörðun,“ segir Duff í viðtali við fótboltatímaritið Four Four Two.

Þessi fyrrverandi írski landsliðsmaður lauk ferlinum í heimalandinu með Shamrock Rovers áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2015. Hann segir frá því í viðtalinu að honum bauðst nokkrum sinnum að ganga í raðir Liverpool.

„Ég var nálægt því að fara til Liverpool tvisvar eða þrisvar sinnum. Fyrst var það árið áður en ég fór til Chelsea. Þá langaði mig að fara en Blacburn vildi svo mikinn pening fyrir mig. Svo vildi Liverpool aftur fá mig þegar ég fór frá Chelsea,“ segir Damien Duff.

Írinn spilaði yfir 600 leiki með félagsliðum á ferlinum og náði 100 landsleikjum. Hann starfar nú sem þjálfari hjá Shamrock Rovers.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×