Skoðun

Greiðsluaðlögun einstaklinga er komin til að vera

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Stærsta verkefni embættis umboðsmanns skuldara frá stofnun þess hefur verið að annast framkvæmd greiðsluaðlögunar fyrir einstaklinga.

Þá hefur embættið jafnframt sinnt ráðgjöf fyrir einstaklinga í greiðsluerfiðleikum, tekið á móti erindum er snerta málefni skuldara, annast eftirlit með endurútreikningi ólögmætra gengistryggðra lána o.fl. Nýjasta verkefni umboðsmanns skuldara er að taka á móti umsóknum um fjárhagsaðstoð til greiðslu tryggingar fyrir kostnaði vegna gjaldþrotaskipta.

Í almennri umræðu um embættið hefur undirrituð orðið vör við þann misskilning að það verði eingöngu starfandi tímabundið, líkt og embætti sérstaks saksóknara. Enginn slíkur tímarammi hefur verið settur á embættið með lögum. Jafnvel þótt embættið tæki á sig breytta mynd er ljóst að úrræði greiðsluaðlögunar þarf að vera í boði fyrir almenning þar sem það hefur margsannað mikilvægi sitt.

Í greiðsluaðlögun einstaklinga er leitast við að ná frjálsum samningum við kröfuhafa, með það að markmiði að koma á jafnvægi milli skulda og greiðslugetu, sbr. lög um greiðsluaðlögun frá árinu 2010. Með úrræðinu fá einstaklingar í verulegum greiðsluerfiðleikum þá aðstoð sem þeir þarfnast í stað þess að lenda á vanskilaskrá eða bú þeirra sé tekið til gjaldþrotaskipta. Endurskipulagning fjárhags getur þannig veitt heimilum lausn undan þungum klyfjum og veitt von til framtíðar.

Úrræðið í stöðugri þróun

Vakin skal athygli á því að úrræði greiðsluaðlögunar hefur staðið almenningi til boða á Norðurlöndum um langa hríð, t.d. komu lög um greiðsluaðlögun til framkvæmda í Noregi árið 1993. Íslendingar eru því seinastir Norðurlandaþjóða til að innleiða slíkt úrræði. Íslenskt lagaumhverfi þarfnast engu að síður endurskoðunar þar sem úrræðið er í stöðugri þróun og ýmsir vankantar hafa komið upp í ferlinu frá því lögin tóku gildi fyrir tæpum fimm árum.

Úrræði greiðsluaðlögunar er opið öllum þeim sem uppfylla ákveðin lagaleg skilyrði og berast nú að meðaltali um 30 umsóknir í mánuði hverjum. Þess skal getið að tímabundin frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefst þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn, en ekki við móttöku umsóknar líkt og gilti fyrir 1. júlí 2011. Greiðsluskjól er ekki úrræði í sjálfu sér og varir þar til samningur um greiðsluaðlögun hefur tekið gildi eða umsókn fellur úr gildi. Rúmlega 2.700 greiðsluaðlögunarsamningar hafa verið samþykktir og í 97% þeirra hefur verið samið um hlutfallslega eða fulla eftirgjöf samningskrafna.

Umboðsmaður skuldara hvetur þá sem vilja kynna sér úrræðið að lesa sér til um það á heimasíðu embættisins, www.ums.is en þar er jafnframt hægt að sækja um greiðsluaðlögun sem og önnur úrræði sem hafa verið nefnd hér að ofan.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×