Fótbolti

Gott fyrir sjálfstraustið að pakka Sterling saman

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Birkir Már Sævarsson tekur hér á Raheem Sterling.
Birkir Már Sævarsson tekur hér á Raheem Sterling. vísir/getty
Birkir Már Sævarsson, bakvörður íslenska landsliðsins, segir að forskot sitt á Raheem Sterling hafi nýst honum vel þegar Ísland mætti Englandi í 16 liða úrslitum EM 2016.

Forskotið sem Birkir á við er að íslenski bakvörðurinn sér Sterling spila í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni í hverri viku á meðan þeir ensku eru varla að sitja yfir leikjum í sænsku úrvalsdeildinni.

„Maður þekkir þessa leikmenn út og inn því ég hef séð þá spila svo oft. Ég veit í hverju þeir eru góðir og hef því smá forskot á þá. Þeir náttúrlega þekkja okkur ekkert,“ segir Birkir Már, en hann svaraði spurningum blaðamanna í Annecy í dag.

Birkir missti Sterling inn fyrir sig á annarri mínútu sem varð til þess að City-leikmaðurinn fiskaði vítaspyrnu en eftir það var Birkir Már, sem spilar fyrir Hammarby, með 44 milljóna punda vængmanninn í vasanum.

„Það var smá ströggl í byrjun en svo náði ég góðum tökum á honum. Það gefur manni auðvitað mikið sjálfstraust og manni líður vel inn á vellinum,“ segir Birkir aðspurður hvernig það var að pakka Sterling saman.

„Mér gekk vel í 80 mínútur á móti honum eða þar til hann fór út af. Það gefur manni alveg hellings sjálfstraust,“ sagði Birkir Már.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×