Innlent

Góður vetur fyrir trjágeitunginn

Sveinn Arnarsson skrifar
Trjágeitungurinn er harðgert dýr sem lætur bjóða sér margt og því líklegt að hann komi ágætlega undan vetri.
Trjágeitungurinn er harðgert dýr sem lætur bjóða sér margt og því líklegt að hann komi ágætlega undan vetri. Mynd/Erling Ólafsson
Þótt veturinn hafi verið hvimleiður fyrir okkur mannfólkið hefur hann verið ágætur fyrir geitunginn á höfuðborgarsvæðinu og því kemur hann vel undan vetri. Þetta er mat Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrfræðistofnun.

„Veturinn hefur verið með ágætum fyrir þá, góð og langvarandi snjóþekja en litlar sem engar frosthörkur,“ segir Erling. „Þeir fara öllu jöfnu ekki af stað fyrir alvöru fyrr en upp úr miðjum maímánuði.“

Holugeitungurinn og trjágeitungurinn eru einu tegundirnar sem lifa hér á landi. 

Trjágeitungurinn er dreifður um allt land en holugeitungurinn er bundinn við suðvesturhornið, frá Meðalfelli í Kjós allt austur til Hellu, auk þess sem hans hefur einnig orðið vart norður á Akureyri.

„Trjágeitungurinn er harður af sér og lætur bjóða sér ýmislegt,“ segir Erling. „Hins vegar gæti holugeitungurinn átt erfiðara uppdráttar ef seint vorar. Hann hefur átt erfið ár og mig grunar að hann gæti mögulega verið á útleið eins og húsageitungur og roðageitungur sem hurfu fyrir nokkrum árum. Það verður því áhugavert að sjá hvernig tegundinni reiðir af í sumar.“

Holugeitungur fannst fyrst hér á landi í Reykjavík árið 1977. Á einungis áratug hafði hann náð að breiða verulega úr sér og leggja undir sig nánast allt höfuðborgarsvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×