Skoðun

Glíman við geðið

Steindór J. Erlingsson skrifar
Nú í sumar eru 29 ár frá því ég áttaði mig skyndilega á því að erfiður kvíði var orðinn hluti af lífi mínu, þá á 18. aldursári. Nokkrum árum síðar varð erfið lífsreynsla í Eþíópíu líklega til þess að mikið þunglyndi og kvíði hefur markað líf mitt síðan. Þegar þrautagangan byrjaði upp úr 1990 voru lyf og innlögn á spítala það eina sem mér stóð til boða. Í einni innlögninni barst sú gleðifrétt að ég gæti mögulega tekið þátt í dagdeildarprógammi geðdeildar Borgarspítalans. Þurfti ég að ganga í gegnum stíf sálfræðipróf þar sem lagt var mat á hvort ég ætti heima þar. Í ljós kom að ég var of veikur til þess að taka þátt í starfinu. Þá spurði ég lækninn hvað hann hygðist gera fyrir mig. „Ég ætla að útskrifa þig.“ Þessi orð óma enn í huganum.

Síðan þá hefur þjónustan batnað. Ef horft er á geðdeildirnar er það mín tilfinning að dvölin þar hafi breyst til batnaðar. Nú yrði ég t.d. ekki sendur út í myrkrið á þeim forsendum að ég væri of veikur til þess að taka þátt í hinu frábæra starfi sem fram fer á Hvítabandinu, dagdeild geðdeildar Landspítalans. Ef það hentaði ekki af einhverjum ástæðum væri m.a. hægt að leita á náðir Klúbbsins Geysis, Hugarafls og Hlutverkaseturs, en slíkir staðir hafa verulega bætt hag einstaklinga sem eiga við erfiðar geðraskanir að stríða.

Meiri ábyrgð

Þrátt fyrir þessar umbætur glímir geðlæknisfræðin við ýmis vandamál sem of lítið er fjallað um hér á landi. Nýjasta dæmið kom upp í lok síðasta mánaðar þegar bandarísku geðlæknasamtökin gáfu út fimmtu útgáfu greiningar- og flokkunarkerfis geðraskana (DSM-5). Flestir helstu fjölmiðlar heimsins fjölluðu ítarlega um málið. Þó ekki vegna þess að hér væri um merkan vísindalegan áfanga að ræða heldur sökum þeirrar miklu gagnrýni sem beint hefur verið að DSM-5.

Gagnrýni á flokkun og greiningu geðraskana, of mikla ávísun geðlyfja, tengsl geðlækna við lyfjaiðnaðinn, litla virkni og hættulegar aukaverkanir sumra geðlyfja er ekki ný af nálinni. En þegar Allen Frances, einn þekktasti geðlæknir samtímans, gengur í hóp gagnrýnenda ættu allir að leggja við hlustir. Frances ritstýrði fjórðu útgáfu DSM (1994), sem hefur haft mun meiri áhrif á heimsvísu en flokkunar- og greiningarkerfi WHO (ICD-10).

Í síðasta mánuði sendi Frances frá sér bókina Saving Normal: An Insider‘s Revolt Against Out-of-Control Psychiatric Diagnosis, DSM-5, Big Pharma, and the Medicalization of Ordinary Life. Þó að Frances beini orðum sínum að bandaríska geðheilbrigðiskerfinu á margt af því sem hann segir vel við hér á landi. Hef ég þar helst í huga mikla ávísun geðlyfja og sjúkdómsvæðingu eðlilegra tilfinninga. Þó að sumt hafi breyst til hins betra hér á landi frá því að ég veiktist fyrst tel ég því nauðsynlegt fyrir íslenska geðheilbrigðisstarfsmenn og almenning að kynna sér gagnrýni Frances. Sjálfur stend ég mun betur að vígi eftir að hafa kynnt mér slíka gagnrýni, enda hefur hún gert mér kleift að taka meiri ábyrgð á eigin meðferð.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×