Skoðun

Gleðilega sól !

Lárus Jón Guðmundsson skrifar
Norrænir forfeður Íslendinga tignuðu sín goð og héldu sín jólablót fram til ársins 1000 þegar Alþing ákvað að taka upp nýjan sið, kristni, sem þótti taka hinum eldri fram. Það voru siðaskipti hin fyrri.

Kristnin með sín Jesújól hefur nú runnið sín þúsund ár og fram undan eru siðaskipti hin síðari. Rétt eins og þau fyrri hafa þessi síðari siðaskipti verið að gerast á nokkrum áratugum og jafnvel öldum.

Á þröskuldi nýs árþúsunds er það raunsæ og óhlutdræg rödd skynsemi og skilnings á manni og náttúru, frá hinu smæsta til hins stærsta, sem verður einkenni hins nýja siðar.

Í árdaga mannkyns, löngu fyrir tíma þeirra trúarbragða sem nú vilja eigna sér öll svör, tóku athugulir og skynsamir menn og konur eftir því að gangur sólar, tungls og stjarna laut ákveðnum lögmálum. Tveir tímapunktar ársins urðu vörður á leið mannkyns til siðmenningar, sólstöður á sumri og vetri. Sólstöður á vetri urðu, eðli málsins samkvæmt, tilefni til einlægs fagnaðar því þá tók daginn að lengja og fyrirheit vorsins um fæðu og frjósemi urðu raunverulegri. Við nútímamenn njótum þess forskots á þessa skynsömu forfeður okkar að gangur himintungla og orsök árstíðaskipta eru ekki hulin neinum leyndarhjúpi. Því er engin þörf á neins konar tákngervingu eða trúarhjúpi á þessum árlegu og gleðilegu tímamótum sólargangsins. Við getum einfaldlega fagnað á einlægan og ærlegan máta að vegna möndulhalla jarðar og stöðu hnattarins á sporbaug um sólu eru bjartari og hlýrri dagar fram undan.

Því ætti kveðjan á þessum myrkasta tíma ársins að vera há og snjöll: Gleðilega sól!




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×