Innlent

Gísli Freyr heldur laununum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Gísli var dæmdur fyrir að leka trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu.
Gísli var dæmdur fyrir að leka trúnaðarupplýsingum úr ráðuneytinu. VÍSIR/GVA
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, þarf ekki að greiða ríkinu til baka laun sem hann fékk eftir að hann var ákærður fyrir að leka trúnaðargögnum úr ráðuneytinu. Þetta kemur í frétt RÚV.

Hann játaði verknaðinn þegar málflutningur átti að fara fram fyrir héraðsdómi og var í kjölfarið dæmdur í 8 mánaða skilorðsbundið fangelsi.

Gísli var ákærður þann 15. ágúst síðastliðinn en játaði ekki fyrr en 11. nóvember. Þann tíma var hann á launum hjá ráðuneytinu.

Þegar ákæra var lögð fram á hendur Gísla Frey var hann sendur í tímabundið leyfi. Hann hélt þó fullum launum á þeim tíma. Eftir að hann var dæmdur voru uppi hugmyndir um að krefja hann endurgreiðslu á laununum.

Í svari við fyrirspurn fréttastofu RÚV til innanríkisráðuneytisins segir að opinberir starfsmenn séu ekki krafðir um endurgreiðslu launa nema í þeim tilvikum þar sem laun hafa verið ofgreidd vegna mistaka, þeir hafi svikið út laun eða dregið sér fé. 

Heildarmánaðarlaun hans námu 893 þúsund krónum en inni í þeirri tölu er föst yfirvinnu sem hann fékk greidd rúm 128 þúsund fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×