Enski boltinn

Giggs ósáttur með hegðun United-manna eftir Chelsea-leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Giggs.
Ryan Giggs. Vísir/Getty
Manchester United goðsögnin Ryan Giggs ætti að þekkja hefðir og venjur félagsins betur en flestir. Giggs var ekki sáttur við leikmenn liðsins á sunnudaginn.

Ryan Giggs gagnrýndi framkomu leikmanna Manchester United eftir 4-0 tapið á móti Chelsea á Stamford Bridge. Chelsea komst í 1-0 á fyrstu mínútu og leikmenn United áttu aldrei möguleika.

Það voru þó ekki úrslit leiksins sem fóru hvað mest fyrir brjóstið á Ryan Giggs.

„Ef þú tapar 4-0, þá óskar þú mótherjanum til hamingju, þakkar stuðningsmönnunum fyrir og svo drífur þú þig inn í klefa,“ sagði Ryan Giggs í samtali við sjónvarpsstöð ensku úrvalsdeildarinnar.

„Það sem þú gerir ekki hinsvegar er að standa inn á vellinum, hlæjandi og að skipta um treyjur við leikmenn liðsins sem var að vinna þig," sagði Giggs.

Ryan Giggs spilaði í 23 ár með Manchester United og samtals 963 leiki fyrir Manchester United. Hann vann enska meistaratitilinn þrettán sinnum og alls 34 titla með félaginu.

Manchester United er í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán stig út úr fyrstu níu leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×