Skoðun

Getur allt fatlað fólk valið sér aðstoðarfólk við kosningar?

Í kjölfar forsetakosninga á síðastliðnu sumri fór af stað umræða um að fötluðu fólki væri ekki heimilað skv. kosningalögum að velja sér eigin aðstoðarmann sem fylgdi þeim í kjörklefa. Síðan voru umræddar kosningar kærðar á þeirri forsendu að þær hefðu ekki verið leynilegar þar sem opinber aðili hefði fylgst með því hvernig fólk greiddi atkvæði sitt. Meðal annars var talið að þetta ákvæði laganna bryti í bága við 29. grein samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Innanríkisráðherra boðaði þá þegar að þessu þyrfti að breyta og það yrði gert fyrir næstu kosningar.

Alþingi samþykkti síðan 11. október sl. breytingu á lögum um kosningar með því ákvæði að þeir sem uppfylla ákvæði 3. mgr. 63. greinar kosningalaga geti sjálfir valið hver aðstoði sig við að greiða atkvæði. Ástæða er til að fagna þeirri breytingu. En ekki er allt sem sýnist því umrædd 3. mgr. 63. greinar kosningalaganna nær síður en svo til allra fatlaðra en þar stendur:

„Ef kjósandi skýrir kjörstjóra svo frá að hann sé eigi fær um að árita kjörseðilinn á fyrirskipaðan hátt eða árita og undirrita fylgibréfið sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal kjörstjóri veita honum aðstoð til þess í einrúmi."

Með öðrum orðum; það eru einvörðungu þeir sem búa við fötlun vegna sjónleysis eða hreyfihömlunar á hendi sem höfðu rétt á aðstoð frá kjörstjórn og nú að eigin vali.

Landssamtökin Þroskahjálp lögðu til við þá þingnefnd sem hafði málið til meðferðar á Alþingi að þessu orðalagi yrði breytt þannig að í stað „sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf" komi „sakir fötlunar". Við því var ekki orðið.

Hafa stjórnvöld þá fullgilt 29. grein samnings SÞ um réttindi fatlað fólks?

Umræddum lögum er meðal annars ætlað að uppfylla ákvæði 29. greinar samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Í A. lið þeirrar greinar eru ákvæði um að aðildarríkin skuli tryggja fötluðum tækifæri til að njóta stjórnmálalegra réttinda sinna til jafns við aðra m.a. með því „að tryggja að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg, auðskilin og auðnotuð".

Á Íslandi hafa aðallega verið stundaðar svokallaðar listakosningar auk þess sem þjóðin hefur valið sér forseta í kosningum. Listakosningar uppfylla vel ákvæði um að vera aðgengilegar og auðskildar. Þar er flokkum úthlutaður bókstafur og það eina sem kjósendur þurfa að gera er að merkja við bókstaf þess flokks sem þeir vilja styðja. Í forsetakosningum er nægjanlegt að þekkja nafn þess frambjóðanda sem maður vill að sitji í því embætti.

Nú eru uppi hugmyndir um að í æ ríkari mæli verði leitað til þjóðarinnar með beinum hætti og þjóðin spurð um margvísleg málefni. Þá verður að tryggja öllum kosningabærum mönnum jafnan rétt og jafna möguleika á því að koma skoðunum sínum til skila á kjörseðli sínum.

Fólk með þroskahömlun getur margt hvert sökum fötlunar sinnar, m.a. takmarkaðrar lestrargetu, átt erfitt með að koma vilja sínum með tryggum hætti á framfæri á kjörseðli.

Nú er nýlokið ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs.

Í þeirri atkvæðagreiðslu var spurt um afstöðu fólks í 6 spurningum. Sumar spurningarnar voru nokkuð langar og ýtarlegar, sú lengsta 22 orð og eitt svarið var 14 orð.

Efst á kjörseðli umræddrar atkvæðagreiðslu var eftirfarandi fyrirsögn:

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, skv. ályktun Alþingis 24. maí 2012.

Þessi texti verður seint talinn aðgengilegur eða auðlæs.

Auk þess var skýringartexti um málsmeðferð við breytingu á stjórnarskrá á seðlinum upp á um það bil 80 orð. Sama var uppi á teningnum þar, textinn hvorki auðlesinn né auðskilinn.

Seðillinn í heild sinni var því afar margorður og lítt árennilegur fyrir fólk sem hefur takmarkaða lestrargetu.

Samtökunum er heldur ekki kunnugt um að upplýsingaefni á auðskildu máli hafi verið útbúið fyrir umræddar kosningar.

Landssamtökin Þroskahjálp eru þess fullviss að vilji Alþingis stendur til þess að tryggja öllum jafna möguleika til þátttöku í opinberum atkvæðagreiðslum í framtíðinni.

Nýsamþykkt lög tryggja ekki að svo verði að mati samtakanna. Ljóst er að hin nýju lög uppfylla ekki heldur ákvæði 29. greinar Samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks um að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu „við hæfi, aðgengileg, auðskilin og auðnotuð".

Það er því brýnt að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar meðal annars með því að heimila fólki með þroskahömlun einnig að fá aðstoð í kjörklefa við að koma skoðun sinni á framfæri með öruggum hætti.

Landssamtökin Þroskahjálp átelja að ekkert samráð hafi verið haft við samtökin við gerð áðurnefnds frumvarps um breytingar á lögum um kosningar og harma að þeir aðilar sem að þeirri endurskoðun komu hafi ekki verið víðsýnni eða meðvitaðri um vanda fólks með þroskahömlun en þar birtist.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×