Enski boltinn

Gerrard hafnaði spennandi tilboðum frá evrópskum liðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard sagði bless við Liverpool í maí.
Steven Gerrard sagði bless við Liverpool í maí. Vísir/EPA
Steven Gerrard var formlega kynntur í dag sem nýr leikmaður bandaríska félagsins Los Angeles Galaxy og var við það tækfæri í viðtali hjá sjónvarpstöð félagsins.

Gerrard kvaddi Liverpool í vor eftir 28 ára veru hjá klúbbnum og ákvað að semja við Galaxy.

Gerrard hefur æfingar með Galaxy-liðinu 7. júlí næstkomandi og fyrsti leikur hans verður væntanlega á móti San Jose Earthquakes tíu dögum síðar.

„Ég fékk spennandi tilboð frá liðum í Evrópu en ég vildi próf eitthvað alveg nýtt," sagði Steven Gerrard í viðtali hjá Galaxy TV en hann valdi frekar að kveðja evrópska fótboltann og flytja sig yfir Atlantshafið.

„Ég vildi prufa að fara út fyrir þægindarammann, flytja í annað land og öðlast nýja lífsreynslu um leið og að komast með fjölskyldu mína á góðan stað þar sem allir geta notið sín og komið sér vel fyrir," sagði Gerrard.

„Þegar ég legg síðan skóna upp á hillu eftir nokkur ár þá get ég sagt að ég hafi prófað eitthvað nýtt. Ég elskaði hverja mínútu hjá Liverpool en það var spennandi að prófa eitthvað annað," sagði Gerrard.

Steven Gerrard er 35 og spilaði yfir sjö hundruð leiki fyrir Liverpool frá 1998 til 2015 þar af 504 leiki í ensku úrvalsdeildinni.

Gerrard skoraði 9 mörk af miðjunni fyrir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og var það sjöunda tímabil hans með níu mörk eða meira í deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×