Innlent

Gerðu grein fyrir afstöðu Íslendinga í hvalamálinu

Atli Ísleifsson skrifar
Íslensk stjórnvöld hafa gefið út kvóta á veiðum á allt að 770 langreyðum næstu fimm árin.
Íslensk stjórnvöld hafa gefið út kvóta á veiðum á allt að 770 langreyðum næstu fimm árin.
Erlendum sendiráðum var gerð grein fyrir afstöðu íslenskra stjórnvalda í hvalamálinu og fengu hana afhenta á fundi þann 15. september, þar sem 28 aðildarríki Evrópusambandsins, auk Bandaríkjanna, Ástralíu, Brasilíu, Ísrael, Mexíkó og Nýja Sjálands mótmæltu hvalveiðum Íslendinga harðlega og afhentu ríkisstjórn Íslands undirritað erindi þess efnis.

Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis hvort eða með hvaða hætti til stæði að svara erindinu. Í svarinu kemur einnig fram að ekki sé gert ráð fyrir frekari svörum við mótmælunum, en afstöðu íslenskra stjórnvalda sem var afhent sendiráðunum má lesa á enskri heimasíðu atvinnuvegaráðuneytisins.

Ríkin sem um ræðir lýstu yfir þungum áhyggjum yfir ákvörðun stjórnvalda að halda hvalveiðum áfram og gagnrýndu milliríkjaviðskipti Íslendinga með hrefnu og langreyði harðlega. Tekið var fram að báðar tegundir væru á alþjóðlegum lista yfir villt dýr í útrýmingarhættu.

Íslensk stjórnvöld hafa gefið út kvóta á veiðum á allt að 770 langreyðum næstu fimm árin. Í tilkynningu vegna málsins var lýst yfir sérstökum áhyggjum vegna veiða Íslendinga á 125 langreyðum árið 2009, 148 langreyðum árið 2010 og 134 árið 2013, sem sé veruleg aukning miðað við þá sjö langreyði sem veiddir voru öll tuttugu árin fyrir árið 2009.

Þá var þess krafist að íslensk stjórnvöld fylgi ráðleggingum Alþjóðahvalveiðiráðsins og hætti að veiða og versla með hval.


Tengdar fréttir

Alþjóðleg mótmæli vegna hvalveiða Íslendinga

Öll tuttugu og átta ríki Evrópusambandsins auk Bandaríkjanna, Ástralíu, Brasilíu, Ísrael, Mexíkó og Nýja Sjálands mótmæla hvalveiðum Íslendinga harðlega og afhentu ríkisstjórn Íslands undirritað erindi þessa efnis í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×