Innlent

Geir spenntur fyrir Washington

Freyr Bjarnason skrifar
Geir H. Haarde hefur verið skipaður í embætti sendiherra Íslands í Washington frá og með næstu áramótum.
Geir H. Haarde hefur verið skipaður í embætti sendiherra Íslands í Washington frá og með næstu áramótum. Fréttablaðið/Anton
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og formaður Sjálfstæðisflokksins, segist hlakka til að taka við stöðu sendiherra í Washington en stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa samþykkt skipun hans í embættið.

„Ég lít á þetta sem mjög spennandi verkefni. Það er mjög margt hægt að gera er varðar samskipti Íslands og Bandaríkjanna á öllum sviðum, eins og í stjórnmálum, viðskiptum, mennta- og menningarmálum og fleiru,“ segir Geir, sem hefur störf um áramótin. „Það er mikið af tækifærum framundan.“

Hann segist þekkja vel til í Bandaríkjunum, enda stundaði hann nám þar í sex ár í þremur mismunandi háskólum. „Ég bjó m.a. í tvö ár í Washington og síðan þá hef ég verið þar í miklum samskiptum sem hafa tengst mínum ýmsu störfum í gegnum árin,“ segir Geir.

„Ég hef haldið sambandi við fjölmarga í stjórnsýslunni þarna, í háskólum og viðskiptalífi, víða um Bandaríkin. Það er nú þannig í svona starfi að sambönd og tengsl sem byggjast kannski upp á löngum tíma geta verið mjög mikilvæg,“ bætir hann við. „Svo þekki ég íslensku utanríkisþjónustuna vel bæði af áralöngu samstarfi við marga af starfsmönnum hennar og einnig sem utanríkisráðherra. Þannig að í stuttu máli hlökkum við hjónin mikið til að takast á við þetta verkefni.“

Geir höfðaði mál gegn íslenska ríkinu árið 2012 vegna óréttlátrar málsmeðferðar en hann var ákærður af Alþingi 2010 fyrir vanrækslu í aðdraganda bankahrunsins. Málið er nú til meðferðar hjá Mannréttindadómstól Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×