Innlent

Geir ákærður í næstu viku

Geir H. Haarde
Geir H. Haarde
Saksóknari Alþingis mun gefa út ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, í næstu viku. Ákæruskjalið er tilbúið og verður sent dómnum og verjanda Geirs eftir helgi ásamt öllum gögnum málsins.

Ákæran er einungis um tvær blaðsíður. Henni fylgja hins vegar ótal skjöl, samtals vel á fjórða þúsund blaðsíður upp úr tölvupósti, skýrslum rannsóknarnefndar Alþingis og öðru.

Þegar Fréttablaðið hafði samband við Sigríði Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, í gær voru hún og samstarfsmenn hennar tveir að leggja lokahönd á um hundrað síðna skjalaskrá, þar sem gerð er grein fyrir gögnunum og því markverðasta sem í þeim má finna.

Eftir helgi verður ákæran og fylgigögnin send í ljósritun. Hver dómaranna fimmtán í landsdómi fær sitt eintak, eins og saksóknari og verjandi. Því má gera ráð fyrir að heildarfjöldi blaðsíðna sem ljósrita þarf verði á bilinu fjörutíu til sjötíu þúsund. Eintökin verða líklega í tíu bindum hvert.

Þegar dómurinn hefur fengið ákæruna í hendur er það hlutverk hans að stefna Geir fyrir dóminn svo þingfesta megi ákæruna. Þingfestingin getur þó ekki farið fram fyrr en þremur vikum eftir að stefnan er birt. Það verður því tæpast fyrr en í lok mánaðar eða í byrjun júní, að mati Sigríðar.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×