Innlent

Gagnrýna samningagerð ráðuneytis

Sveinn Arnarsson skrifar
Fréttablaðið greindi fyrst frá samningum ráðuneytisins við Rannsóknir og greiningu ehf, þann 30. september síðastliðinn sem varð til þess að Ríkisendurskoðun hóf stjórnsýsluúttekt á samningum ráðuneytisins við fyrirtækið allt aftur til ársins 1999.
Fréttablaðið greindi fyrst frá samningum ráðuneytisins við Rannsóknir og greiningu ehf, þann 30. september síðastliðinn sem varð til þess að Ríkisendurskoðun hóf stjórnsýsluúttekt á samningum ráðuneytisins við fyrirtækið allt aftur til ársins 1999.
Ríkisendurskoðun gerir alvarlegar athugasemdir við verklag mennta- og menningarmálaráðuneytisins við viðskipti við einkahlutafélagið Rannsóknir og greiningu um fjölda æskulýðsrannsókna fyrirtækisins fyrir hið opinbera. Gagnrýnir Ríkisendurskoðun að samningur um norræna æskulýðsrannsókn sem gerður var árið 2009 hafi ekki verið boðinn út.

Fréttablaðið sagði fyrst frá því þann 30. september á síðasta ári að fyrirtækið hafi gert samninga við ráðuneytið um æskulýðsrannsóknir fyrir allt að fimmtíu milljónir króna án útboðs. Í kjölfar þess hóf Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt á samningum stjórnvalda við fyrirtækið.

Fram kemur í skýrslunni að undanfarin 16 ár hafi einkahlutafélagið fengið samtals greiddar 158 milljónir króna úr ríkissjóði fyrir margvíslegar æskulýðsrannsóknir. Stofnunin gerir athugasemdir við hvernig staðið var að viðskiptum við félagið. Telur Ríkisendurskoðun ráðuneytið þurfa að vanda betur til samninga um þjónustukaup og móta þurfi heildstæða stefnu um æskulýðsrannsóknir.

Ríkisendurskoðun Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að nauðsynlegt sé að formbinda samninga og huga að jafnræðisákvæði laga um opinber innkaup.
Samið rétt áður en ríkisstjórn hrökklast frá völdum

Fram kemur einnig í skýrslunni að eðli sumra samninga ráðuneytisins við Rannsóknir og greiningu ehf. séu óljósir og ekki hægt að meta hvort um þjónustusamninga eða styrktarsamninga sé að ræða.

Í þessum samningum við Rannsóknir og greiningu var aldrei leitað útboðs eða tilboða annarra aðila sem sinna æskulýðsrannsóknum hér á landi. Telur Ríkisendurskoðun í skýrslu sinni mikilvægt að virða jafnræðisreglu íslenskrar stjórnsýslu og kanna áhuga og getu annarra fræðimanna á að sinna verkefnum sem þessum. 

Samningur menntamálaráðuneytisins við Rannsóknir og greiningu sem undirritaður var 12. janúar árið 2009 vekur athygli Ríkisendurskoðunar. Sá samningur hljóðaði upp á 24,2 milljónir króna og var gerður tveimur árum áður en fyrstu rannsóknir samningsins áttu að fara fram. Gilti hann til ársins 2016. Samningurinn var gerður stuttu áður en ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks fór frá völdum og boðað var til kosninga. 



Sögu einkahlutafélagsins má rekja aftur til ársins 1997 þegar Björn Bjarnason menntamálaráðherra ákvað að leggja niður Rannsóknarstofnun uppeldis og menntamála (RUM). Upp úr því varð til Námsmatsstofnun en rannsóknarhluti RUM var gefinn eftir til nýstofnaðs fyrirtækis, Rannsókna og greiningar ehf., ákveðið af Birni Bjarnasyni, þáverandi menntamálaráðherra. 

Rannsóknir og greining ehf. fékk á sínum tíma heimild til að halda rannsóknum um ungt fólk áfram og viðhalda starfinu sem unnið hafði verið innan RUM.

Á þessum tíma, frá árinu 1997-1998, var Inga Dóra Sigfúsdóttir, eigandi Rannsókna og greiningar ehf., í hálfu starfi fyrir menntamálaráðherra, Björn Bjarnason, og í hálfu starfi hjá Rannsóknarstofnun uppeldis og menntamála. Einnig var hún aðstoðarmaður bæði Davíðs Oddssonar og Ólafs G. Einarssonar á kjörtímabilinu 1991-1995.

Illugi Gunnarsson Ekki náðist í menntamálaráðherra við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir
Ekki náðist í Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir blaðsins.

Hér má lesa skýrslu Ríkisendurskoðunar: „Samningar um æskulýðsrannsóknir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×