Innlent

Gætu borið mismikla ábyrgð í málinu

Snærós Sindradóttir skrifar
Lögregla hefur lokið rannsókn á togaranum Polar Nanoq. Þegar rannsókn lauk var loks hægt að afferma skipið í gær. Gert er ráð fyrir því að skipið sigli úr höfn í dag.
Lögregla hefur lokið rannsókn á togaranum Polar Nanoq. Þegar rannsókn lauk var loks hægt að afferma skipið í gær. Gert er ráð fyrir því að skipið sigli úr höfn í dag. Fréttablaðið/Vilhelm
Thomas Møller Olsen, sem grunaður er um að hafa banað Birnu Brjánsdóttur, keyrði rauða Kia Rio-bílinn margumrædda frá Hafnarfjarðarhöfn og um 300 kílómetra að morgni 14. janúar síðastliðins.

Félagi hans, Nikolaj Olsen, sem einnig er grunaður um aðild að málinu, fór aftur á móti um borð í togarann Polar Nanoq og fór ekki aftur með Thomasi. 

Talið er næsta víst að Birnu Brjánsdóttur hafi verið komið fyrir í sjó, í löngu ferðalagi bílsins um Reykjanesskagann. Birna fannst í flæðarmálinu við Selvogsvita á sunnudag.

Hæstiréttur staðfesti í gær tveggja vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum, en fór ekki að ýtrustu kröfum ákæruvaldsins sem krafðist fjögurra vikna gæsluvarðhalds. Mennirnir verða yfirheyrðir í dag en þeir hafa dvalið í einangrun síðastliðna þrjá daga án þess að vera yfirheyrðir af lögreglu.

Heimildir Fréttablaðsins innan lögreglunnar herma að sá tími sem liðið hefur sé meðal annars vegna þess að með því aukist líkurnar á því að mennirnir tjái sig af einhverri alvöru um málið. 

Í yfirheyrslum yfir mönnunum á fimmtudag og föstudag kom lítið haldbært fram. Gærdeginum varði lögregla í að undirbúa yfirheyrslur yfir mönnunum, en eins og fram kom í Fréttablaðinu í gær, verður málið lagt fyrir þá frá a til ö í þeirri von að þeir játi aðild sína að því.

Lögregla hefur lokið rannsókn á togaranum Polar Nanoq og lagði hald á gögn í skipinu sem talið er að skipti verulegu máli fyrir rannsókn málsins. Lögregla hefur ekki viljað staðfesta hvers eðlis þessi gögn eru. Ef áætlanir ganga eftir heldur skipið úr höfn í dag. Í gær var landað úr bátnum eftir að lögregla veitti heimild til þess.

Lögreglan rannsakar nú þátt hvors mannsins fyrir sig í málinu en til greina kemur að þeir beri mismikla ábyrgð á verknaðinum. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×