Skoðun

Góður mál­svari ís­lenskrar menningar

Kristín Huld Sigurðardóttir skrifar

Ég hafði verið forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins í átta ár, þegar Katrín Jakobsdóttir tók við sem mennta- og menningarmálaráðherra árið 2009. Frá fyrsta degi sýndi hún málefnum fornleifa brennandi áhuga, rétt eins og öðrum sviðum menningarmála. Hún var sú fyrsta af ráðherrum málaflokksins sem þáði boð um að koma í heimsókn og kynna sér hvað starfsfólk Fornleifaverndarinnar var að fást við. Hún hlustaði á það sem við höfðum að segja. Hún var þægileg, áhugasöm og jákvæð. Ég var ekki alltaf sátt við niðurstöður ráðuneytisins en öll okkar samskipti voru hreinskiptin og fagleg.

Katrín var afbragðsgóður ráðherra verndar og vörslu menningarminja. Undir hennar stjórn voru Þjóðminjalög endurskoðuð og ný, farsæl lög um menningarminjar voru sett árið 2012. Fornleifavernd ríkisins og húsafriðunarnefnd voru sameinaðar og Minjastofnun Íslands tók til starfa.

Unnið var að fjölda spennandi verkefna í ráðherratíð Katrínar, sem hún tók þátt í. Meðal þeirra var evrópsk ráðstefna um nýtingu fjarkönnunar, svo sem gervihnatta við að skrá minjar. Tækni, sem sýnir m. a. minjar á sjávarbotni, í þéttvöxnum skógi og víðar sem önnur tækni nær ekki til. Katrín sló í gegn og var ljóst af umræðum næstu árin að ráðstefnugestir fylgdust með henni. Önnur áhugaverð verkefni frá þessum tíma voru samkeppni um bætta miðlun og aðgengi að minjunum í Stöng í Þjórsárdal og opnun minjagarðsins á Skriðuklaustri og undirritun verndaráætlunar minjanna.

Hvaða umsögn, fær fyrrverandi ráðherra frá fyrrverandi forstöðumanni ? Katrín setur sig vel inn í málin. Það er gaman að ræða við hana. Hún hefur kímnigáfu. Hún er hlý og hefur mikla útgeislun. Hún er afburðagreind eins og alkunna er. Hún talar hin ýmsu tungumál, þeirra á meðal Norðurlandamálin, sem er nauðsynlegt fyrir forseta Íslands. Hún er vel tengd og nýtur virðingar erlendis. Núna þegar hún er hætt í stjórnmálum og gefur kost á sér sem forseti er enginn vafi í mínum huga að íslensk menning fær ekki betri vin í næsta forseta, jafnvel þótt margt ágætt fólk úr menningunni sé í framboði. Katrín fær atkvæðið mitt.

Höfundur er með Phd. gráðu í fornleifafræði og fyrrverandi forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins og Minjastofnunar Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Sundtískan

Anna Gunndís Guðmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×