Innlent

Segja lýð­ræðis- og mann­réttinda­bak­slag stað­reynd

Jakob Bjarnar skrifar
Halla Hrund, sem er nú efst í skoðanakönnunum, tjáði sig ekki um hatursorðræðuna sem þau Katrín og Baldur greina sem afar vaxandi fyrirbæri.
Halla Hrund, sem er nú efst í skoðanakönnunum, tjáði sig ekki um hatursorðræðuna sem þau Katrín og Baldur greina sem afar vaxandi fyrirbæri. vísir/vilhelm

Baldur Þórhallsson og Katrín Jakobsdóttir eru sammála um að mikið bakslag hafi átt sér stað hvað varðar lýðræðis- og mannréttindamál í hinum vestræna heimi.

Þetta kom meðal annars fram í pallborðsumræðum þar sem rætt var við þá þrjá frambjóðendur sem virðast vera að skera sig nokkuð úr í baráttunni um Bessastaði sé litið til skoðanakannana: þau Baldur og Katrín auk Höllu Hrundar Logadóttur.

Katrín vill ekki segja fjölmiðlum fyrir verkum

Bakslagið kom upp í framhaldi af umræðum um fjölmiðla og hvað þeir eigi að fá að fjalla um. Hvort þeim kæmi allt við sem viðkemur þeim sem eru í framboði til forseta. Katrín sagði fjölmiðla frjálsa. Og hún teldi einfaldlega það svo að fjölmiðlum bæri að spyrja frambjóðendum.

„Fjölmiðlar eru frjálsir og ég ætla ekki að hafa skoðun á því hvað þeir megi taka upp þó persónulega hafi ég ekki áhuga á því. En það er ekki mitt að stýra því hvað þeir gera,“ 

sagði Katrín.

Katrín sagði forsetaembættið eðlisólíkt því sem gerist í því sem við köllum hefðbundin stjórnmál og fólk vilji geta lagt mat á eitt og annað sem það telur að geti haft áhrif á dómgreind forsetans.

Hér neðar má sjá sérstaka vakt sem var um Pallborðið hér neðar:

Sjálf sagðist Katrín svo heppin að hún hafi verið í sviðsljósinu um áratugaskeið og allt lægi þetta meira og minna fyrir. „en það er ekkert óeðlilegt við það að fjölmiðlar spyrji mig persónulegra spurninga.“

Vaxandi hatursorðræða hvert sem litið er

Í framhaldi af þessu var Baldur spurður hvort það hafi komið sér á óvart hversu mjög kynhneigð hans hafi verið til skrafs í heitum pottum og á samfélagsmiðlum? Jafnvel í fjölmiðlum?

Baldur svaraði því til að hann hafi tekið þátt í virkri mannréttindabaráttu nú í þrjátíu ár. Að hann sem samkynhneigður maður fái að stofna fjölskyldu og njóti grundvallarmannréttinda.

„Það er að vissu leyti erfitt að leggja sjálfan sig á borð með þessum hætti,“ 

sagði Baldur. En hann sagðist hafa lýst því yfir að hann greindi vaxandi hatursorðræðu sem erfitt væri að leiðrétta. Hann sæi þetta lýðræðis- og mannréttindabakslag alls staðar. Sig langi stundum helst að fara upp í rúm og breiða yfir haus. „En það eina sem gagnast er að stíga fram og láta í sér heyra.“

Katrín tók undir þetta, sagði bakslag hafa orðið í mannréttindamálum. Svo virtist sem þau hafi verið tekin á brott yfir nóttu, það hafi verið grafið undan lýðræðinu, stór lýðræðisríki og aldrei eins mikilvægt og nú að Ísland tali sterkri röddu um þessi mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×