Erlent

Dæmdu sam­skipta­stjóra Meta fyrir að „verja hryðju­verk“

Kjartan Kjartansson skrifar
Meta er skilgreint sem öfgasamtök í Rússlandi og lokað er á helstu miðla þess, Facebook og Instagram.
Meta er skilgreint sem öfgasamtök í Rússlandi og lokað er á helstu miðla þess, Facebook og Instagram. AP/Thibault Camus

Rússneskur herdómstóll dæmdi samskiptastjóra samfélagsmiðlarisans Meta í sex ára fangelsi að honum fjarstöddum í dag. Hann var sakaður um að birta ummæli á netinu til stuðnings Úkraínumönnum í innrás Rússa í nágrannaland sitt.

Saksóknari ákærði Andy Stone, talsmann Meta, eftir að rússneska innanríkisráðuneytið hóf sakamálarannsókn á honum seint í fyrra. Ráðuneytið greindi ekki frá tilefni rannsóknarinnar. Stone var fundinn sekur um að „verja hryðjuverk opinberlega“ í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Rússneska ríkisfréttastofan RIA hefur eftir rannsakendum málsins að Stone hafi birt ummæli á netinu þar sem hann hafi varið „óvinveittar og ofbeldisfullar aðgerðir“ gegn rússneskum hermönnum sem taka þátt í því sem stjórnvöld í Kreml þráast enn við að kalla „sérstaka hernaðaraðgerð“ sína í Úkraínu.

Verjandi Stone segir rússnesku Interfax-fréttastofunni að dómnum verði áfrýjað.

Meta, sem á meðal annars Facebook og Instagram, er skilgreint sem öfgasamtök í Rússlandi. Bæði Facebook og Instagram hafa verið bönnuð í landinu frá því að innrásin hófst árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×