Innlent

Hryðjuverkamálið til Lands­réttar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ísidór Nathansson og Sindri Snær Birgisson eru sakborningar í málinu.
Ísidór Nathansson og Sindri Snær Birgisson eru sakborningar í málinu. Vísir/Vilhelm

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í hinu svokallaða hryðjuverkamáli til Landsréttar. Áfrýjað er til sakfellingar fyrir tilraun til hryðjuverka og hlutdeild í þeirri tilraun. Sindri snær Birgisson og Ísidór Nathansson voru sýknaðir í héraðsdómi af þeim hluta málsins.

Þetta kom fram í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is. Ríkissaksóknari krefst einnig staðfestingar á sakfellingu í þeim hluta málsins sem snýr að vopnalagabroti. Farið er fram á refsiþyngingu. Sindri Snær hlaut tveggja ára dóm og Ísidór átján mánaða dóm.

Sakborningarnir voru handteknir þann 21. september 2022 í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitar Ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í Kópavogi og Mosfellsbæ. Þeir voru fyrst ákærðir í október sama árs en ákærunni var vísað frá dómi í febrúar ári síðar. Í júní á síðasta ári ákærði embætti héraðssaksóknara þá aftur og var sú ákæra talsvert lengri og ítarlegri.

Mikið hefur verið fjallað um mál þeirra tveggja í fjölmiðlum undanfarin ár. Sindri og Ísidór hlutu dóm fyrir vopnalagabrot sem þeir játuðu að hluta til en voru sýknaðir af þeim ákærulið sem sneri að skipulagningu hryðjuverka.

„Í mínum huga er ekki tilefni til þess að áfrýja þessu áfram. Þó að þetta sé fyrsta hryðjuverkamálið þá reynir þetta bara á tilraun. Ég hef trú á því að héraðsdómur hafi farið eftir fræðibókunum um tilraun og þá hlutdeild í tilefni hans umbjóðanda. Það eru engin rök sem mæla sérstaklega með áfrýjun,“ hafði Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars sakbornings málsins, að segja eftir að dómur var upp kveðinn.

Embætti ríkissaksóknara hefur þó greinilega talið tilefni til áfrýjunar.


Tengdar fréttir

„Áfellisdómur fyrir ákæruvaldið og ríkislögreglustjóra“

Sveinn Andri Sveinsson og Einar Oddur Sigurðsson verjendur sakborninga í hryðjuverkamálinu segja niðurstöðuna áfellisdóm fyrir embætti ríkislögreglustjóra og héraðssaksóknara. Sakborningar voru sakfelldir fyrir vopnalagabrot en sýknaðir af þeim ákærulið sem sneri að hryðjuverkum.

Sindri fékk tveggja ára dóm og Ísidór átján mánuði

Sakborningarnir í hryðjuverkamálinu svokallaða voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Sindri Snær Birgisson, 26 ára, hlaut  24 mánaða fangelsisdóm og Ísidór Nathansson, 25 ára, hlaut átján mánaða fangelsisdóm. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×