Íslenski boltinn

Á leið í segul­ómun vegna meiðslanna í Lautinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hrafn (fyrir miðju af KR-ingunum) meiddist í Lautinni.
Hrafn (fyrir miðju af KR-ingunum) meiddist í Lautinni. Vísir/Anton Brink

Hrafn Tómasson, betur þekktur sem Krummi, kom inn af varamannabekk KR þegar liðið vann Fylki 4-3 í 1. umferð Bestu deildar karla. Hann entist þó ekki lengi þar sem hann varð fyrir meiðslum á hné.

KR vann Fylki í leik sem var hreint út sagt hin besta skemmtun. KR komst 4-1 yfir en heimamenn svöruðu með tveimur mörkum undir lok leiks. Gestirnir urðu þó fyrir áfalli þegar Aron Sigurðarson fór meiddur af velli í fyrri hálfleik.

Í hans stað kom hinn ungi Hrafn inn af bekknum en hann þurfti einnig að fara af velli vegna meiðsla. Í spjalli við Fótbolti.net staðfesti Hrafn að hann væri á leið í segulómun og eftir það verði hægt að meta hversu alvarleg meiðslin eru.

Eftir leik hafði Gregg Ryder, þjálfari KR, þetta að segja í samtali við Vísi:

„Við tökum Aron aðallega út af bara til að fyrirbyggja frekari meiðsli. Hann fann eitthvað til í upphituninni. Ég vona að meiðsli Hrafns séu ekki alvarleg, hann hefur verið frábær fyrir okkur á undirbúningstímabilinu. Hann er mikilvægur fyrir liðið og við vonum það besta en getum ekki alveg sagt hversu alvarlegt þetta er núna.“

Atli Sigurjónsson kom inn af bekknum í stað Hrafns og skoraði tvö af fjórum mörkum KR í leiknum. Það er þó ljóst að um mikið áfall er að ræða fyrir KR ef Hrafn verður frá til lengri tíma.

KR mætir Stjörnunni í Garðabænum í 2. umferð Bestu deildar karla. Fer leikurinn fram 12. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×