Íslenski boltinn

„Við ætlum okkur alla leið“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ísak Snær á Kópavogsvelli í gær.
Ísak Snær á Kópavogsvelli í gær. vísir/einar

Breiðablik fékk mikinn liðsstyrk um nýliðna helgi er Ísak Snær Þorvaldsson snéri aftur í lið Blika. Hann var besti leikmaður efstu deildar er hann spilaði síðast á Íslandi.

Hinn 22 ára gamli Ísak Snær kemur á láni frá norska félaginu Rosenborg en þangað var hann einmitt seldur frá Blikum eftir að hafa farið mikinn með Blikum sumarið 2022.

„Það var ákvörðun hjá mér og Rosenborg að koma mér á ról aftur. Fá smá „restart“ og koma mér í stand eftir kviðslitsaðgerð,” sagði Ísak Snær við íþróttadeild í gær en hann spilaði síðast í janúar. Biðin utan vallar hefur því verið löng.

„Þetta er búið að vera basl frá síðustu leiktíð. Þessi endurkoma hefur verið í umræðunni í mánuð. Þetta kláraðist samt ekki fyrr en á föstudag og því var ég fljótur að pakka og fljúga heim. Það er gott að koma heim í Kópavoginn.“

Klippa: Gott að koma heim í Kópavog

Eftir erfiða mánuði í meiðslum í Noregi segir Ísak það vera gott að koma heim og vera aftur með Blikafjölskyldunni sinni. Hann mun ekki spila með Blikum gegn FH í kvöld en mun reima á sig skóna mjög fljótlega.

„Ég er mjög spenntur fyrir sumrinu og deildin hefur líklega aldrei verið sterkari. Það er eins og koma heim til fjölskyldunnar að koma aftur í Blika. Þetta er góður hópur,“ segir leikmaðurinn ánægður.

„Planið er að taka nokkrar mínútur um næstu helgi. Svo bara vinnum við út frá því. Komast hægt og rólega aftur á fullt. Þetta Blikalið ætlar sér alla leið. Það kemur ekkert annað til greina. Við vitum hvað við getum og það er bara alla leið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×