Íslenski boltinn

Sjáðu fyrsta mark Gylfa og þegar KR skoraði beint úr horn­spyrnu

Sindri Sverrisson skrifar
KR og Fylkir röðuðu inn mörkum í Árbænum í gær en það voru KR-ingar sem fóru heim með stigin þrjú.
KR og Fylkir röðuðu inn mörkum í Árbænum í gær en það voru KR-ingar sem fóru heim með stigin þrjú. vísir/Anton

Gylfi Þór Sigurðsson var í aðalhlutverki í fyrsta leik sínum í Bestu deildinni í fótbolta í gær. Fyrsta mark hans í deildinni, markasúpuna í leik Fylkis og KR, og önnur mörk gærdagsins má nú sjá á Vísi.

Gylfi átti stóran þátt í báðum mörkum Vals í gær, í 2-0 sigrinum á ÍA. Hann átti fyrirgjöf í fyrra markinu á Orra Sigurð Ómarsson sem gerði vel í að skalla á Patrick Pedersen sem skoraði. Gylfi skoraði svo sjálfur seinna markið, með skoti úr miðjum teignum eftir að hafa verið fljótur að athafna sig.

Klippa: Mörkin úr leik Vals og ÍA

Í Árbænum voru skoruð sjö mörk í 4-3 sigri KR gegn Fylki, í fyrsta deildarleik KR-inga undir stjórn Gregg Ryder.

Theodór Elmar Bjarnason okm KR yfir en Benedikt Daríus Garðarsson jafnaði rétt fyrir hálfleik. Í seinni hálfleik komst KR aftur yfir eftir glæsimark Luke Rae, og Atli Sigurjónsson skoraði úr skyndisókn strax í kjölfarið. Atli skoraði svo fjórða mark KR beint úr hornspyrnu á 80. mínútu. 

Fylki tókst samt að minnka muninn með mörkum frá Halldóri Jóni Sigurði Þórðarsyni og Þórði Gunnari Hafþórssyni.

Klippa: Mörkin úr leik Fylkis og KR

Vestramenn urðu að sætta sig við 2-0 tap í frumraun sinni í deildinni, gegn Fram í Úlfarsárdal, þar sem bæði mörkin komu á fyrsta hálftímanum.

Fred skoraði fyrra markið með góðu skoti og það seinna er á vef KSÍ skráð á Kennie Chopart, en boltinn fór af Eiði Aroni Sigurbjörnssyni á leiðinni í netið.

Klippa: Mörkin úr leik Fram og Vestra

Í snjókomunni á Akureyri voru einnig tvö mörk skoruð en þar gerðu KA og HK 1-1 jafntefli. Rodrigo Gomes kom KA yfir strax á áttundu mínútu en Atli Þór Jónasson nýtti hæð sína vel til að jafna fyrir HK, en KA-menn voru ósáttir við að ekki skyldi dæmd aukaspyrna á samherja hans fyrir að hefta för markvarðarins Kristijan Jajalo.

Klippa: Mörkin úr leik KA og HK

Tengdar fréttir

Uppgjörið: KA - HK 1-1 | Sterkt stig HK-inga fyrir norðan

KA og HK skildu jöfn á Greifavellinum á Akureyri í dag í fyrstu umferð Bestu deildar karla, lokatölur 1-1. Viðar Örn Kjartansson kom inn á í liði KA í síðari hálfleik en náði ekki að setja mark sitt á leikinn.

Uppgjörið: Fram - Vestri 2-0 | Öflug byrjun í Úlfarsárdalnum

Nýliðar Vestra heimsóttu Fram í Úlfarsárdalinn í fyrstu umferð Bestu deildar karla. Lokatölur 2-0 sigur Fram, bæði mörk komu í fyrri hálfleiknum sem var feyki fjörugur, það hægðist svo töluvert á hlutunum í þeim seinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×