Sport

„Ég átta mig ekki á því hvort þetta séu sann­gjörn úr­slit"

Sverrir Mar Smárason skrifar
Jökull í leiknum í kvöld.
Jökull í leiknum í kvöld. Visir/ Hulda Margrét

Stjarnan tapaði fyrsta leik Bestu deildarinnar í ár gegn ríkjandi meisturum í Víkingi í Fossvoginum í kvöld. Jökull Elísarbetarson, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur en þó á sama tíma sáttur með margt í leik kvöldsins.

„Þetta var bara hörku leikur. Bæði lið áttu sína kafla og þeir nýttu færin sín. Ég átta mig ekki á því hvort þetta séu sanngjörn úrslit, þarf að horfa á þetta betur til þess að fá tilfinninguna fyrir því. Mér fannst þeir sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og meira með boltann þó við höfum fengið betri færi. Við meira með boltann í seinni en þeir nýttu færin sín,” sagði Jökull og hélt áfram.

„Mér fannst seinni hálfleikurinn alveg vera eitthvað sem hægt er að taka með og byggja á. Mér fannst koma áræðni og kraftur þegar leið á. Það var erfitt að spila á móti vindinum í fyrri hálfleik og við vorum aðeins að mikla það fyrir okkur. Það er margt sem við getum skoðað, gert betur og margt sem við gerðum vel.”

Óli Valur og Guðmundur Baldvin eru báðir ungir stjörnumenn sem nýlega komu aftur heim úr atvinnumennsku. Þeir voru báðir á bekknum í dag.

„Óli er búinn að vera meiddur og er að koma til baka. Það er ekki langt síðan þeir komu svo þeir eru bara að komast inn í hlutina. Við vorum með þokkalega stóra hóp í fyrra og það voru oft leikmenn utan hóps sem gætu byrjað og það er eins núna. Við munum breyta liðinu ansi oft og viljum geta það,” sagði Jökull.

Næsti leikur Stjörnunnar er gegn KR næstkomandi fötsudag. Þetta er farið af stað.

„Þetta er bara skemmtilegt. Gaman að rýna í þennan leik og gera hann upp. Nýta svo vikuna í að undirbúa næsta leik,” sagði Jökull að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×