Körfubolti

„Ekki allt satt og rétt í þessari yfir­lýsingu“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Snorri Arnaldsson er mótastjóri KKÍ.
Snorri Arnaldsson er mótastjóri KKÍ. Heimasíða KKÍ

Mótastjóri KKÍ segir ekki allt satt og rétt sem fram hafi komið í yfirlýsingu Grindavíkur vegna Íslandsmóts 11 ára drengja um helgina. Hann segir ljótt að gera hlutina eins og Grindvíkingar hafi gert. 

Orð mótastjóra KKÍ snúa að yfirlýsingu sem Grindavík gaf frá sér í kjölfar atburðarásar í sambandi við keppni Minnibolta 11 ára og yngri á Ísafirði um helgina. Þar spila drengir á móti sem er hluti af Íslandsmóti aldursflokksins.

Í yfirlýsingu Grindvíkinga kom fram að vegna slæmrar veðurspár hafi KKÍ ákveðið að stytta mótið en að styttingin hafi aðeins átt við lið í neðra getustigi. Þessu mótmæltu Grindvíkingar og gagnrýndu þar að auki viðbrögð KKÍ við fyrirspurnum liðsins og segir að ábendingum hafi verið svarað með óviðeigandi hætti.

Snorri Arnaldsson er mótastjóri KKÍ. Hann segir að KKÍ hafi ekki fengið yfirlýsingu Grindvíkinga senda heldur hafi hún aðeins birst á samfélagsmiðlum.

„Það er ekkert allt satt og rétt í þessari yfirlýsingu og það verður farið yfir það eftir helgi. Þau sendu yfirlýsinguna ekki á okkur heldur birtist hún bara á samfélagsmiðlum,“ sagði Snorri í samtali við Íþróttadeild Vísis og bætti við að frekari viðbrögð vegna málsins kæmu frá KKÍ eftir helgi og myndi framkvæmdastjóri sjá um málið.

Mótið á Ísafirði fór fram um helgina þrátt fyrir að fleiri félög en Grindavík hafi hætt við þátttöku vegna breytinganna sem gerðar voru á leikjafyrirkomulaginu. Snorri sagði að þau lið sem hafi mætt hafi spilað.

Í yfirlýsingu Grindvíkinga kom jafnframt fram að félagið hafi fengið upplýsingar um frekari breytingar á leikjafyrirkomulaginu síðar en önnur lið. Ef liðið hefði fengið þær upplýsingar í tíma hefði félagið haldið til Ísafjarðar.

„Það er rangt. Önnur félög spurðu spurninga og fengu svör við þeim. Það er auðvelt að henda fram einhverjum samsæriskenningum en þetta var bara engan vegin þannig. Það er ljótt að gera þetta eins og Grindavík gerði svo ég segi það nú bara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×