Körfubolti

Jerry West inn í Heiðurshöll körfuboltans í þriðja sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jerry West hefur verið frábær innan sem utan vallar í störfum sínum í NBA deildinni í körfubolta.
Jerry West hefur verið frábær innan sem utan vallar í störfum sínum í NBA deildinni í körfubolta. Getty/Allen Berezovsky

Jerry West er á leiðinni í Heiðurshöll körfuboltans, Naismith Basketball Hall of Fame, en hann ætti að þekkja þá tilfinningu vel. Þessi goðsögn NBA-deildarinnar hefur tvisvar áður verið tekinn inn í Heiðurshöllina.

Hinn 85 ára gamli West var fyrst tekinn inn í Heiðurshöllina sem leikmaður árið 1979 en einnig sem leikmaður bandarísku Ólympíumeistaranna frá leikunum í Róm 1960. Hann fór því í annað sinn inn í Heiðurshöllina árið 2010.

Nú er verið að taka West inn í Heiðurshöllina fyrir hans framlag til körfuboltans í gegnum störf sín sem framkvæmdastjóri Los Angeles Lakers og Memphis Grizzlies sem og fyrir ráðgjafastörf hans fyrir bæði Golden State Warriors og LA Clippers

Félögin sem hann hefur aðstoðað hafa unnið alls átta meistaratitla og hann var tvisvar valinn framkvæmdastjóri tímabilsins, fyrst 1994-95 með Lakers og svo 2003-04 með Grizzlies.

West vann NBA titil sem leikmaður Los Angeles Lakers á sínum tíma en hann hefur fengið heiðurinn af því að vera arkitektinn á bak við Lakers liðin á níunda og tíunda áratugnum. Það var einmitt West sem gerði samninginn sem náði í Kobe Bryant til Lakers.

West vann einnig í sex ár með Golden State Warriors og var aðalmaðurinn á bak við það að setja saman liðið sem vann titilinn 2015 og 2017.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×