Körfubolti

„Frá­bært að vera spila á móti erki­fjendunum í hörku leik“

Stefán Marteinn skrifar
Sverrir Þór Sverrisson var sáttur að leik loknum.
Sverrir Þór Sverrisson var sáttur að leik loknum. Vísir/Diego

Keflavík lagði nágranna sína í Njarðvík af velli með eins stigs mun í miklum baráttuleik 70-69 í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Heimaliðið er fyrir lifandi löngu búið að tryggja sér toppsæti deildarinnar og deildarmeistaratitilinn á meðan gestirnir lifðu í voninni um að enda í 2. sæti.

„Þetta var baráttuleikur. Við skutum tólf prósent í þriggja og þær þrettán prósent sem er helvíti dapurt en ég er ánægður með sigurinn, baráttuna og seigluna í liðinu hjá mér. Ég sagði fyrir leikinn að við þyrftum að frákasta vel og þær jörðuðu okkur í fráköstum og við hittum skelfilega úr þristum þannig sigurinn í raun ennþá sætari fyrir vikið afþví það var virkilega erfitt að landa þessu,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir leikinn í kvöld.

Mikil barátta einkenndi þennan leik og til marks um það þá héldu gestirnir Keflavík í aðeins sjö stigum í þriðja leikhluta. Keflavík gerði þó vel í að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

„Við fórum bara að klára betur og sækja meira á körfuna. Þegar við erum ekki að hitta fyrir utan þá þurfum við að fara finna leiðir til að skora. Þetta var langt frá því að vera einhver landsleikur þannig séð en sterkt að ná að vinna hann. Vinna hann naumt hérna þrátt fyrir að vera langt frá því að spila vel.“

Sverrir Þór fannst helsti munurinn á milli liðana vera grimmdin.

„Bara grimmd. Stelpunum langaði og það var mjótt á munum hérna í restina. Þetta var einn og einn laus bolti og frákast sem við vorum búnar að vera í basli með í leiknum en vorum að ná mikilvægum í restina, það er eiginlega það. Grimmd og vilji.“

Sverrir Þór var einnig sammála því að þetta væri frábær undirbúningur fyrir úrslitakeppnina sem tekur nú við.

„Já algjörlega. Frábært að vera spila á móti erkifjendunum hérna í hörku leik og nú er deildin bara búin og þá byrjar ný keppni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×