Fótbolti

Ísak Berg­mann og fé­lagar áttu aldrei mögu­leika gegn Le­verku­sen

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson (nr. 8) lék allan leikinn gegn ógnarsterku liði Leverkusen.
Ísak Bergmann Jóhannesson (nr. 8) lék allan leikinn gegn ógnarsterku liði Leverkusen. Fortuna Düsseldorf

Verðandi Þýskalandsmeistarar Bayer Leverkusen eru komnir í bikarúrslit eftir gríðarlega sannfærandi 4-0 sigur á Fortuna Düsseldorf. Ísak Bergmann Jóhannesson er á láni hjá Düsseldorf sem vonast til að vinna sér inn sæti í þýsku úrvalsdeildinni í vor.

Leverkusen hefur verið einfaldlega óstöðvandi á leiktíðinni og á Þýskalandsmeistaratitilinn vísan. Þá er liðið komið í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar og nú bikarúrslit eftir sigur kvöldsins.

Gestirnir frá Düsseldorf sáu aldrei til sólar en hægri bakvörðurinn Jeremie Frimpong kom Leverkusen yfir strax á 7. mínútu eftir undirbúning Patrik Schick. Amine Adli tvöfaldaði forystuna á 20. mínútu eftir sendingu frá Florian Wirtz. Stundarfjórðung síðar var svo komið að Adli að leggja upp á Wirtz og staðan 3-0 í hálfleik.

Wirtz bætti við öðru marki sínu og fjórða marki Leverkusen úr vítaspyrnu eftir klukkustundarleik. Staðan orðin 4-0 og reyndust það lokatölur. Ísak Bergmann lék allan leikinn á miðju Düsseldorf.

Ísak Bergmann og félagar eru um þessar mundir í 3. sæti þýsku B-deildarinnar, sex stigum frá 2. sætinu sem fer beint upp í efstu deild. Fari svo að Düsseldorf endi í 3. sæti fer það í umspil við liðið í 16. sæti úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×