Fótbolti

De Zerbi ekki lengur meðal þeirra sem eru lík­legir til að taka við Liverpool

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp og Roberto De Zerbi á góðum degi.
Jürgen Klopp og Roberto De Zerbi á góðum degi. Andrew Powell/Liverpool FC via Getty Images

Roberto De Zerbi, knattspyrnustjóri Brighton & Hove Albion, er ekki lengur talinn meðal þeirra þjálfara sem eru taldir líklegastir til að taka við stjórnartaumunum hjá Liverpool þegar Jürgen Klopp lætur af störfum í sumar.

De Zerbi var á lista hjá Liverpool yfir mögulega arftaka Jürgen Klopp sem hefur ákveðið að stíga til hliðar eftir níu farsæl ár við stjórnvölinn.

Samkvæmt heimildum Sky Sports hafa forráðamenn Liverpool hins vegar ákveðið að leita annað en til Ítalans De Zerbi, þó það komi ekki fram hverjir séu enn á lista félagsins.

Þrátt fyrir það virðist De Zerbi þó vera eftirsóttur. Eins og greint var frá hér á Vísi í gær, þriðjudag, er hann sá þjálfari sem er talinn líklegastur til að taka við þýska stórliðinu Bayern München þegar Thomas Tuchel lætur af störfum í sumar. Ásamt De Zerbi er Julian Nagelsmann, þjálfari þýska landsliðsins og fyrrverandi þjálfari Bayern, einnig talinn líklegur til að taka við því starfi.

Sjálfur hefur De Zerbi neitað að fullvissa stuðningsmenn Brighton um að hann verði áfram hjá félaginu á næsta tímabili og því hafa ýmsar vangaveltur um framtíð hans farið á flug. Þýska stórveldið telur að það muni kosta tíu til fimmtán milljónir evra að losa Ítalann undan samningi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×