Fótbolti

Glódís og Svein­dís mætast í bikar­úr­slita­leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Glódís Perla Viggósdóttir og markvörðurinn Maria-Luisa Grohs.
Glódís Perla Viggósdóttir og markvörðurinn Maria-Luisa Grohs. Getty/Sebastian Widmann

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í Bayern München eru komnar í bikarúrslitaleikinn í Þýskalandi eftir sigur á Eintracht Frankfurt í vítakeppni í undanúrslitaleiknum í dag.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli en Bayern vann vítakeppnina 4-1 þar sem liðsmenn Frankfurt klúðruðu þremur vítaspyrnum.

Við fáum því úrslitaleik á milli tveggja efstu liða deildarinnar og um leið Íslendingaslag.

Sveindís Jane Jónsdóttir og félagar hennar í Wolfsburg tryggðu sér sæti í bikarúrslitaleiknum með 9-0 stórsigri á Essen í hinum undanúrslitaleiknum í gær.

Bayern byrjaði leikinn í dag betur og Georgia Stanway kom þeim í 1-0 með marki úr vítaspyrnu strax á fjórðu mínútu. Vítið var dæmt vegna hendi hjá varnarmanni Frankfurt.

Frankfurt liðið jafnaði fjórtán mínútum síðar þegar Geraldine Reuteler skoraði með óverjandi skoti af tuttugu metra færi.

Það komu ekki fleiri mörk, hvorki í seinni hálfleik né í framlengingu. Það þurfti því vítakeppni til að fá fram úrslit.

Stanway klikkaði á fyrstu vítaspyrnu Bayern en Frankfurt klikkaði aftur á móti á tveimur fyrstu vítaspyrnum sínum. Fyrst Laura Freigang og svo Reuteler.

Sydney Lohmann skoraði úr annarri spyrnu Bæjara og kom liðinu í 1-0 í vítakeppninni.

Frankfurt klikaði á þriðju spyrnu sinni líka en Lara Prasnikar, gerði það. Bayern liðið var komið i 2-0 í vítakeppninni eftir mark frá Magdalenu Eriksson.

Frankfurt skoraði loksins úr fjórðu vítaspyrnu sinni en þar var Barbara Dunst að verki. Það var þó bara skammgóður vermir.

Danska landsliðskonan Pernille Harder tryggði Bayern sigurinn í vítakeppninni með því að skora úr fjórðu spyrnunni. Bæjarar þurftu því ekki að taka síðustu spyrnu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×