Fótbolti

Þórir lagði upp mikil­vægt mark í lífs­nauð­syn­legum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Jóhann Helgason með boltann í þessum mikilvæga sigri Eintracht Braunschweig í dag.
Þórir Jóhann Helgason með boltann í þessum mikilvæga sigri Eintracht Braunschweig í dag. Getty/Swen Pförtner

Þórir Jóhann Helgason lagði upp fyrsta mark Braunschweig í 5-0 heimasigri á Elversberg í þýsku b-deildinni í dag.

Þetta var lífsnauðsynlegur sigur fyrir Braunschweig liðsins í harðri fallbaráttu í deildinni.

Með þessum þremur stigum komst Braunschweig upp í 30 stig og upp úr fallsæti en núna munar aðeins þremur stigum á liðunum í tólfta sæti niður í sautjánda sæti.

Þórir Jóhann átti stoðsendinguna þegar Robin Krausse kom Braunschweig í 1-0 á sjöundu mínútu og Ermin Bicakcic bætti svo við marki í uppbótatíma fyrri hálfleiks.

Þriðja markið kom síðan úr vítaspyrnu á 80. mínútu en það skoraði Hasan Kurucay. Liðið fann síðan leiðina í markið í fjórða sinn með marki í uppbótatíma. Florian Kruger skoraði það. Þeir voru ekki hættir því Kurucay skoraði sitt annað mark í blálokin.

Liðið bætti því ekki aðeins við þremur stigum heldur lagaði líka markatölu sína.

Þórir var tekinn af velli á 68. mínútu leiksins.

Ísak Bergmann Jóhannesson var ekki með Düsseldorf sem vann 3-1 útisigur á Kaiserslautern en hann tók út leikbann. Düsseldorf hoppaði upp í þriðja sæti með sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×