Skoðun

Furðu­legar verð­lækkanir á mörkuðum

Baldur Thorlacius skrifar

Á vormánuðum verða fjárfestar oft varir við furðulegar verðlækkanir við opnun hlutabréfamarkaða, sem tengjast ekki viðbrögðum við neikvæðum fréttum eða hefðbundnum sveiflum á markaði. Hlutabréfaverð Sjóvá-almennra trygginga lækkaði t.d. um rúm 4% í fyrstu viðskiptum dagsins þann 8. mars, Arion banka um 6% þann 14. mars og Íslandsbanka um 6% þann 22. mars.

Hvað gæti mögulega skýrt slíkar lækkanir, ef ekki neikvæðni á markaði? Svarið liggur í fyrirbæri sem getur valdið lækkun hlutabréfaverðs en engu að síður glatt fjárfesta: Arðgreiðslur. Almenningshlutafélög sem eru með hefðbundið reikningsár (janúar – desember) halda yfirleitt svokallaðan aðalfund í mars eða apríl, þar sem hluthafar koma saman og kjósa um ýmis málefni. Þar á meðal kjósa þeir um hvernig fara skuli með hagnað eða tap félagsins á reikningsárinu, þ.e. hvort greiða eigi út arð eða ekki.

Arðgreiðslur eru ein leið fyrir hlutafélög til að skila hagnaði, eða hluta hans, til eigenda sinna. En hluthafahópur félaga á markaði getur tekið örum breytingum, einhverjir selja og aðrir kaupa, og því þurfa félögin að ákveða fastan tímapunkt sem þau miða við í hluthafaskránni, við greiðslu arðs. Þessi tímapunktur hefur verið kallaður arðréttindadagur.

Það verða því eðlilega alltaf einhver skil, aðili sem kaupir hlutabréf á tilteknum degi á rétt á arðgreiðslu en aðili sem kaupir degi síðar á það ekki. Þessi seinni dagur er kallaður arðleysisdagur. Arðleysisdagur Sjóvá-almennra trygginga var einmitt þann 8. mars, Arion banka 14. mars og Íslandsbanka 22. mars og hlutabréfaverð félaganna lækkaði því sem næst um sömu fjárhæð og arðgreiðslurnar hljóðuðu upp á. Allt eftir bókinni.

Skráð félög birta tilkynningar um aðalfundi sem eru aðgengilegar víða (t.d. á vefsíðu félaganna, vefsíðu Nasdaq og hjá upplýsingaveitum eins og Keldunni), þar sem þau tilgreina þessa daga. Það er því gott fyrir fjárfesta að fylgjast vel með arðleysisdögum, ef þeir ætla að kaupa eða selja hlutabréf – sérstaklega á vormánuðum.

Höfundur er framkvæmdastjóri skráninga hjá Nasdaq Iceland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×