Fótbolti

Fyrrum for­seti kín­verska fót­bolta­sam­bandsins í lífs­tíðar­fangelsi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chen Xuyuan þarf að dúsa í fangelsi þar sem eftir lifir ævinnar.
Chen Xuyuan þarf að dúsa í fangelsi þar sem eftir lifir ævinnar. Getty/Future Publishing

Chen Xuyuan missti ekki aðeins stöðu sína sem forseti kínverska fótboltasambandsins heldur hefur hann einnig verið dæmdur í lífstíðarfangelsi.

Xuyuan var starfandi forseti sambandsins þegar hann var handtekinn í febrúar á síðasta ári fyrir spillingu í starfi.

Chen Xuyuan er 67 ára gamall og varð forseti sambandsins árið 2019. Spillingarmál hans ná þó mun lengra aftur enda hafði hann starfið lengi í kínverska fótboltanum áður en hann varð hæstráðandi.

Á árunum 2010 til 2023 þá nýtti Chen sér stöðu sína til að komast yfir ólöglegt fé. Talið er að hann hafi safnað að sér 81 milljón júan eða einum og hálfum milljarði íslenskra króna.

Blað Kommúnistaflokks Kína, Blað fólksins, fjallar um málið og segir frá spillingu Chen. Hann er sagður hafa með þessu skaðað samkeppni á milli liða í Kína og hafi sóst eftir mútugreiðslum til að hagræða leikjum, eiga við stöðu liða og skipt sér af störfum dómara.

Xi Jinping er leiðtogi Alþýðulýðveldisins Kína sem aðalritari Kommúnistaflokks Kína. Hann er forseti landsins og formaður hinnar valdamiklu hernaðarnefndar Kommúnistaflokks landsins. Hann er líka mikill fótboltaaðdáandi og hefur það markmið að berja niður spillingu tengda íþróttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×