Fótbolti

Faðir Neymars segir fjöl­skylduna ekki gefa Dani Al­ves meiri pening

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dani Alves huggar Neymar eftir að Brasilíumenn duttu út í átta liða úrslitum á HM í Katar 2022.
Dani Alves huggar Neymar eftir að Brasilíumenn duttu út í átta liða úrslitum á HM í Katar 2022. Getty/Visionhaus

Dani Alves þarf að safna einni milljón evra í tryggingu til þess að sleppa út úr fangelsi. Hann getur ekki lengur seilst ofan í vasa vinar síns.

Neymar hjálpaði fyrrum liðsfélaga sínum, hjá Barcelona og brasilíska landsliðinu, með lögfræðikostnaðinn þegar réttarhaldið stóð yfir en faðir Neymar segir að nú sé komið nóg.

Dani Alves var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga konu á skemmtistaðarklósetti í Barcelona. Um leið og dómurinn féll þá breyttist afstaða Neymar og fjölskyldu hans til þess að aðstoða hann. ESPN segir frá.

Alves áfrýjaði dómnum og lögfræðingar hans fengu það síðan í gegn að hann fengi að fara úr fangelsinu gegn tryggingu þar til að málið væri tekið fyrir. Sú trygging er hins vegar ein milljón evra eða 149 milljónir íslenskra króna.

Brasilískir miðlar sögu fyrst frá því að Neymar ætlaði að borga trygginguna fyrir Dani Alves en það er ekki rétt. Faðir hans ákvað að senda frá sér tilkynningu til að það væri á hreinu.

„Fyrir okkur og fyrir mína fjölskyldu, þá er þessu lokið,“ sagði faðir Neymars, Neymar da Silva Santos Sr, í yfirlýsingu. Alves fékk pening frá Neymar til að hjálpa sér með háan lögfræðikostnað.

Alveg hefur mörgum sinnum breytt sögu sinni af því sem gerðist og ávallt eftir að nýjar sannanir gegn honum komu fram.

„Um leið og spænskur dómstóll dæmdi hann sekan voru uppi vangaveltur um og tilraunir til að bendla mitt nafn og nafn sonar míns við málið en við komum ekki nálægt þessu lengur,“ sagði Neymar eldri.

Hann bætti því við hann vonaðist eftir því að Alves finni svörin við því sem hann leiti innan sinni eigin fjölskyldu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×