Innlent

Starfs­maðurinn á bata­vegi og stjórn­endum brugðið

Árni Sæberg skrifar
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa Lónsins.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu Bláa Lónsins. Vísir/Einar

Starfsmaður Bláa lónsins, sem leitaði á bráðamóttöku í gær vegna öndunarfæraeinkenna af völdum gasmengunar, er á batavegi. Framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu segir að stjórnendum sé brugðið vegna málsins og það sé tekið alvarlega.

Greint var frá því í dag að starfsmaður Bláa lónsins hefði þurft að leita á bráðamóttöku vegna gasmengunar frá eldgosinu á Sundhnúksgígaröðinni.

Í fréttatilkynningu frá Bláa lóninu segir að veikindi mannsins séu rakin til gasmengunar en töluvert magn brennisteinsdíoxíðs hafi mælst í lofti víða á Reykjanesi í gær.

Starfsmaðurinn hafi verið við vinnu utandyra í nágrenni lónsins á gröfu. Bláa Lónið hafi verið lokað frá því að síðasta gos hófst og því hafi engir gestir verið á svæðinu. 

„Svo virðist sem gasmengun hafi slegið niður á svæðinu sem unnið var á. Þegar veikindi mannsins komu upp var honum ekið til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja til aðhlynningar. Að lokinni skoðun fékk hann að fara heim og er hann nú á batavegi.“

Enginn mælir á svæðinu

Öryggisverðir í Bláa Lóninu beri gasmæla og fylgst sé með loftgæðum í kringum lónið. Þá séu staðbundnir gasmælar á nokkrum stöðum í Bláa Lóninu, bæði innandyra og utandyra. 

Enginn slíkur mælir hafi þó verið á því svæði sem starfsmaðurinn var við störf á í gær. Brugðist hafi verið við málinu um leið og það kom upp. Lögreglan og Vinnueftirlitið séu  upplýst um málið og þegar hafi verið óskað eftir samstarfi við Veðurstofu Íslands um frekari uppsetningu mælabúnaðar á athafnasvæði Bláa Lónsins í Svartsengi til að geta fylgst nánar með loftgæðum. Sérfræðingar frá verkfræðistofunni Eflu leiði þá vinnu.

Þakklát fyrir að ekki fór verr

„Okkur er auðvitað brugðið vegna þessa atviks og við tökum það mjög alvarlega. Við erum í góðu sambandi við starfsmanninn sem um ræðir og við erum mjög þakklát fyrir að þetta fór ekki verr. Sömuleiðis viljum þakka þeim starfsmönnum okkar sem brugðust hratt og vel við,“ er haft eftir Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra sölu, rekstrar og þjónustu Bláa Lónsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×