Innlent

Land­ris í Svarts­engi hefur stöðvast

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Ætla má að eldgosið sem hófst um síðustu helgi gæti orðið nokkuð langdregið, þar sem engar vísbendingar hafa verið um það síðustu mánuði um að tekið sé að hægja innstreymi kviku undir Svartsengi. 
Ætla má að eldgosið sem hófst um síðustu helgi gæti orðið nokkuð langdregið, þar sem engar vísbendingar hafa verið um það síðustu mánuði um að tekið sé að hægja innstreymi kviku undir Svartsengi.  Vísir/Vilhelm

Áfram er góður kraftur í eldgosinu á Reykjanesskaga milli Hagafells og stóra Skógfells. Ljóst þykir að landris í Svartsengi hefur stöðvast. Því virðist jafnvægi komið á kerfið þar sem innflæði kviku upp í jarðskorpuna er til jafns við það sem streymir út í eldgosinu.

Þetta kemur fram í nýrri færslu á vef Eldfjalla og náttúruváhóps Suðurlands. Þar segir að gosopum hafi ekkert fækkað frá því í byrjun vikunnar og framleiðnin sé því áfram merkilega stöðug. 

Í hádegisfréttum Bylgunnar sagði Elísabet Pálmadóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni að nú gysi úr sjö gígum og hraun rynni í virkum taumi í suður. Mælingar sýndu að hraunið væri orðið allt að fjórtán metra hátt þar sem það væri þykkast. 

Ennþá gýs úr sjö gígum og þaðan rennur hraunið i virkum taumi suður.Vísir/Vilhelm

Í færslu ENS segir að síðustu mánuði hafi sírennsli ekki verið til staðar, heldur hafi innstreymið safnast fyrir í grunnstæðu kvikuhólfi/laggangi undir Svartsengi, sem síðan hefur orsakað ítrekuð, skammlíf eldgos þegar þrýstingur í hólfinu var nægur til að brjóta leið upp á yfirborð.

„Þetta innstreymi hefur verið í gangi síðan síðla í október, eða tæpt hálft ár. Því má ætla að eldgosið gæti orðið nokkuð langdregið, þar sem engar vísbendingar hafa verið um það síðustu mánuði um að tekið sé að hægja á þessu innstreymi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×