Íslenski boltinn

Adam hafi nánast þvingað treyjuna upp á Gylfa: „Minn er heiðurinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Adam ásamt Gylfa með nýju treyjuna.
Adam ásamt Gylfa með nýju treyjuna. Instagram/@adampalsson

Gylfi Þór Sigurðsson þakkar Adam Ægi Pálssyni fyrir að afhenda sér treyjunúmerið 23 hjá Val. Adam skipti um númer svo Gylfi gæti borið sömu tölu á bakinu og hann gerði á sínum bestu árum hjá Swansea í ensku úrvalsdeildinni.

Tían er oft tengt við Gylfa enda bar hann þá tölu á bakinu alla sína tíð með landsliðinu. Kristinn Freyr Sigurðsson var hins vegar ekki tilbúin að láta hana af hendi hjá Val, eitthvað sem Gylfi hefur skilning á.

„Ég skil það alveg. Ég grennslaðist aðeins fyrir og vissi að tían hafði mikla þýðingu fyrir hann. Ég skil það persónulega mjög vel,“ segir Gylfi.

Klippa: Adam þvingaði treyjuna upp á Gylfa

Þá virðist sem talan 23, sem Michael Jordan gerði ódauðlega á tíma sínum með Chicago Bulls, hafa verið næst á óskalistanum. Gylfi bar þá tölu á síðari tíma sínum með velska liðinu Swansea, sem lék þá í ensku úrvalsdeildinni.

Adam Ægir Pálsson var númer 23 fyrir en skipti glaður upp í 24. „Minn er heiðurinn“ sagði Adam á samfélagsmiðlinum Instagram við mynd af þeim Gylfa með treyjuna.

„Þá hafði ég smá samband við Adam og það var eiginlega frekar hann sem vildi þvinga 23 upp á mig en að ég væri að eltast við það,“

„Þetta sýnir bara hvernig stemningin er í hópnum. Þeir vilja allir láta manni líða eins og ég sé velkominn og líða vel. Það er ein af stóru ástæðunum fyrir því að ég valdi Val,“ segir Gylfi.

Gylfi getur þreytt frumraun sína í efstu deild hér á landi þegar Valur hefur leik í Bestu deildinni með leik við ÍA á Hlíðarenda þann 7. apríl.

Fyrsta umferð Bestu deildar karla

  • Laugardagur 6. apríl

  • 19:15 Víkingur R. - Stjarnan


  • Sunnudagur 7. apríl
  • 13:00 Fram - Vestri
  • 16:15 KA - HK
  • 19:15 Valur - ÍA
  • 19:15 Fylkir - KR


  • Mánudagur 8. apríl
  • 19:15 Breiðablik - FH



Fleiri fréttir

Sjá meira


×