Innlent

Eflingar­fólk sam­þykkir kjara­samning með miklum meiri­hluta

Atli Ísleifsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, óskar félagsfólki sínu til hamingju með nýsamþykktan kjarasamning.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, óskar félagsfólki sínu til hamingju með nýsamþykktan kjarasamning. Vísir/Vilhelm

Um 76 prósent þeirra félagsmanna Eflingar sem greiddi atkvæði um Stöðugleikasamninginn svokalla greiddi atkvæði með samþykkt samningsins. Um 13 prósent greiddi atkvæði gegn samþykkt samningsins og 10 prósent skilaði auðu. Kosningaþátttakan var tíu prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu, en atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks Eflingar um nýjan kjarasamning við SA lauk í hádeginu. 

„Samningurinn var samþykktur með yfir þremur fjórðu hlutum greiddra atkvæða, og kjörsókn stórjókst miðað við atkvæðagreiðsluna 2019. Atkvæði féllu þannig:

  • sögðu 2.782 eða 76% þeirra sem greiddu atkvæði.
  • Nei sögðu 493 eða 13% þeirra sem greiddu atkvæði.
  • 377 eða 10% skiluðu auðu.

Af þeim 20.326 Eflingarfélögum sem voru á kjörskrá nýttu 3.652 atkvæðisrétt sinn eða rétt tæp 18%. Til samanburðar var kjörsókn rúm 10 prósent í sambærilegri atkvæðagreiðslu um Lífskjarasamningana árið 2019,“ segir í tilkynningunni.

Haft er eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, að hún óski félagsfólki til hamingju með nýjan kjarasamning. Þá óski hún einnig samninganefnd Eflingar til hamingju með að hann hafi verið samþykktur með svo góðum meirihluta. „Í því felst mikil og dýrmæt traustsyfirlýsing til félagsfólksins sem sigldi þessum kjaraviðræðum í höfn. Ég fagna því líka að við höfum aukið kjörsókn um hátt í 80% miðað við atkvæðagreiðsluna 2019, sem að mínum dómi er til marks um árangur okkar í að efla þátttöku í félaginu á síðustu árum,“ sagði Sólveig Anna.

Fram kemur að Efling hvetji félagsfólk til að kynna sér vel allar breytingar samningsins, sérstaklega launahækkanir. „Félagsfólk er jafnframt hvatt til að fylgjast með því að launahækkanir skili sér við næstu launagreiðslu. Hækkanir gilda frá 1. febrúar og á því næsta launagreiðsla að fela í sér afturvirkni vegna febrúarmánaðar,“ segir í tilkynningunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×